Innlent

Telur farsælast að ráðherra áfrýi ekki dómnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. vísir/gva
Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sérfræðilæknis sé fordæmisgefandi í málum annarra sérfræðilækna. Þá telur hann farsælast að heilbrigðisráðherra áfrýi ekki dómnum. Ráðherra hyggst ekki tjá sig um málið fyrr en að loknum fundi með ríkislögmanni.

Vísir greindi frá því í dag að héraðsdómur hefði fellt úr gildiákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, SÍ, um að hafna umsókn Ölmu Gunnarsdóttur, sérfræðings í háls- nef- og eyrnalækningum, um aðild að rammasamningi SÍ og sérgreinalækna. Þá var íslenska ríkinu gert að greiða Ölmu 1,8 milljón krónur í málskostnað.

Gott að fá staðfestingu á afstöðu SÍ

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, var búinn að fara yfir dóminn þegar fréttastofa náði af honum tali síðdegis í dag. Aðspurður um hvað blasi nú við í málum SÍ og sérfræðilækna segir hann að farsælast væri að áfrýja ekki dómnum.

„Það er í rauninni bara gott að fá afstöðu Sjúkratrygginga staðfesta. Spurningin er hvað ráðherra gerir í framhaldinu, mín skoðun er sú að það væri farsælast fyrir alla aðila að virða þennan dóm og áfrýja ekki. En það er auðvitað ráðherrans að taka af skarið með það.“



Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.Fréttablaðið/Ernir
RÚV greindi frá því í október í fyrra að átta sérfræðilæknar hygðust stefna ríkinu vegna synjunar á umsókn að rammasamningi SÍ. Alma er ein þessara lækna og reiknar Steingrímur með að dómur í hennar máli hafi fordæmisgildi.

„Þannig að það er nær alveg óvírætt að þessi úrskurður hefur fordæmisgildi fyrir hina sjö. Og svo er í rauninni sjálfgefið að hann hefur líka fordæmisgildi fyrir þá sem hafa sótt um aðild að samningnum síðan,“ segir Steingrímur. Enginn sérfræðilæknir hefur fengið aðild að rammasamningi SÍ síðan 1. janúar 2016.

Ráðherra tjáir sig ekki að svo stöddu

Inntur eftir því hvort Alma komist á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands segir Steingrímur aftur að það velti á ákvörðun heilbrigðisráðherra.

„Niðurstaða héraðsdóms er að fella synjunina úr gildi. Það þýðir að það þyrfti að taka umsóknina aftur til afgreiðslu. Það verður auðvitað ekki gert fyrr en ráðherra hefur tjáð sig.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst ekki tjá sig um málið fyrr en hún hefur farið yfir dóminn með ríkislögmanni. Fundur ráðherra og ríkislögmanns mun fara fram á morgun. Áfrýja verður dómnum innan fjögurra vikna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×