Innlent

Samdráttur í bílasölu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sala á nýjum bílum hefur dregist saman um nærri tólf prósent það sem af er þessu ári og hefur nýskráðum bílum fækkað um tvö þúsund milli ára. Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir að markaðurinn sé nú að ná jafnvægi eftir mikinn uppgangstíma og spáir áframhaldandi samdrætti á næstu misserum.

Rúmlega 21 þúsund bílar seldust á síðasta ári sem var það besta í bílasölu frá upphafi. Markaðurinn hefur verið á mikilli uppleið á undanförnum árum en nú bendir margt til þess að einhver samdráttur sé framundan.

„Samdrátturinn er einna helst í sölu á bílaleigubílum. Þar hefur salan verið að dragast saman um 18 prósent en til einstakling er þetta rúmlega sex prósent. Þannig að þetta er aðallega hjá bílaleigufyrirtækjum,“ segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Bílasala nærri tvöfaldaðist á árunum 2010 til 2017 en María spáir samdrætti á næsta ári.

„Við teljum að það verði smá samdráttur á næsta ári en ekki eins mikið og núna þannig að við erum á nokkuð góðu róli,“ segir María sem telur ennfremur að markaðurinn sé að ná jafnvægi eftir mikinn uppgang.

„Það var komin mikil þörf á endurnýjun og núna er þetta að ná ákveðnu jafnvægi,“ segir María.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×