Fótbolti

Jón Guðni skrifar undir þriggja ára samning við Krasnodar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Velkominn til Krasnodar.
Velkominn til Krasnodar. mynd/heimasíða krasnodar
Jón Guðni Fjóluson hefur skrifað undir þriggja ára samning hjá Krasnodar í Rússlandi en þetta staðfesti félagið í kvöld.

Eins og Vísir greindi frá í gær komust Krasnodar og Norrköping að samkomulagi um kaupverð en Jón Guðni átti enn eftir að standast læknisskoðun.

Nú hefur félagið staðfest það að hann hefur staðist læknisskoðun og var hann í kvöld tilkynntur sem leikmaður Krasnodar. Hann skrifar undir þriggja ára samning.

Hann er fimmti Íslendingurinn í Rússlandi en þrír Íslendingar spila með Rostov og einn með CSKA Moskvu. Ragnar Sigurðsson spilaði með Krasnodar frá 2014 til 2016.

Undanfarin ár hefur Jón Guðni spilað í Svíþjóð en nýjasti landsliðsþjálfari Íslands er frá Svíþjóð, Erik Hamrén. Jón Guðni á þrettán landsleiki að baki en hefur ekki verið í hópnum að undanförnu.

Það er spurning hvort að Jón Guðni fái kallið aftur eftir að hann færði sig til Rússlands. Krasnodar er með þrjú stig eftir tvo leiki og spilar næst gegn Ufa á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×