Erlent

Fé til höfuðs eiturlyfjabaróns rúmlega 170 milljónir króna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mexíkóska lögreglan vinnur nú með bandarísku fíkniefnalögreglunni að því að knésetja einn aldræmdasta eiturlyfjabarón síðari ára.
Mexíkóska lögreglan vinnur nú með bandarísku fíkniefnalögreglunni að því að knésetja einn aldræmdasta eiturlyfjabarón síðari ára. Vísir/Getty
Yfirvöld í Mexíkó hafa tilkynnt að fé til höfuðs einum mest eftirlýsta glæpamanni landsins, Nemesio Oseguera Cervantes, einnig þekktur sem „El Mencho,“ sé nú orðið 30 milljón pesóar. Sú upphæð jafngildir rúmlega 171 milljón íslenskra króna.

Hin himinháa upphæð stendur til boða hverjum þeim sem getur veitt yfirvöldum upplýsingar um eiturlyfjabaróninn, en hann er höfuðpaur Jalisco New Generation eiturlyfjahringsins, sem hefur á síðustu misserum beitt miklu ofbeldi í tilraunum til að koma í veg fyrir að yfirvöld nái í skottið á Oseguera, meðal annars með því að þvera vegi og stöðva þannig umferð, auk þess að stela farartækjum þegar yfirvöld hafa verið að nálgast höfuðpaurinn.

Tilkynningin kom í kjölfar þess að yfirvöld í Mexíkó ákváðu að vinna nánar með bandarísku fíkniefnalögreglunni að því að uppræta eiturlyfjasmygl. Þá munu aðilarnir leggja meiri áherslu á alþjóðlegar rannsónir á málum sem snúa að fíkniefnasmygli og öðru slíku athæfi.

Oseguera er einn allra valdamesti eiturlyfjasmyglari sem enn gengur laus, en hann hefur forðast handtöku í tæpan áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×