Innlent

Fólk áttar sig á að það geti minnkað vistsporið sitt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Harpa Árnadóttir myndlistarmaður, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Rakel Halldórsdóttir ráðgjafi og dóttir hennar, María Anna Arnarsdóttir.
Harpa Árnadóttir myndlistarmaður, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Rakel Halldórsdóttir ráðgjafi og dóttir hennar, María Anna Arnarsdóttir.
Það er duglegt og drífandi fólk hér í Skagafirði og mikill frumkvöðlakraftur sem svífur yfir vötnum. Allmargir eru komnir með leyfi til heimavinnslu afurða, vottuð eldhús og fjölbreytta ræktun,“ segir Rakel Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá Matís, og áður verslunarmaður í Frú Laugu í Reykjavík. Hún kom á fót sveitamarkaði í húsi Þjóðminjasafnsins á Hofsósi í sumar og nú verður hann fluttur í Svaðastaðahöllina á Sauðárkróki um helgina.

Stórsamkoman Sveitasæla verður nefnilega haldin á Króknum, það er landbúnaðarsýning og bændahátíð og Rakel segir fjölbreytt og skemmtilegt úrval úr matarkistu Skagafjarðar verða á boðstólum á markaðinum. Hún nefnir kornhænuegg, hunang, hákarl, kryddjurtir, pestó og nýsprottið, útiræktað grænmeti sem dæmi, auk alls konar fisk- og kjötmetis í úrvali. „Hér ræktar fólk meira að segja rósir til sölu,“ upplýsir hún.

Rakel hefur búið síðasta árið á Hofsósi, er flutt aftur suður en sinnir þó verkefnum í Skagafirði á vegum Matís áfram. Hún er mikill talsmaður þess að bændur og aðrir matvælaframleiðendur selji afurðir beint frá býli og segir mikla framþróun í þeirri grein vera að eiga sér stað. „Fólk áttar sig á að það geti minnkað vistsporið sitt með því að eiga í viðskiptum innan síns nærumhverfis og það er vinsælt bæði af heimamönnum og gestum.“

Víðsvegar um heiminn er árþúsundahefð fyrir svona mörkuðum, bendir Rakel á. „Fólk leitar að því sem einkennir svæðið og heillast af hugmyndinni um að njóta afurða, handverks, stemningar og menningar á hverjum stað,“ segir hún og bætir við: „Markaðirnir ýta líka undir nýsköpun og eru liður í að viðhalda byggð í dreifbýlinu.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×