Innlent

Segir svar úr kosningaprófi RÚV ekki stangast á við afstöðu sína í málefnum heimilislausra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eyþór Arnalds sagðist ósammála því að borgin ætti að leggja aukna áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Hann hefur nú gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir aðgerðarleysi í málaflokknum.
Eyþór Arnalds sagðist ósammála því að borgin ætti að leggja aukna áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Hann hefur nú gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir aðgerðarleysi í málaflokknum. Vísir/Vilhelm

Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og borgarfulltrúi, segir svar sitt við spurningu um félagslegt húsnæði í kosningaprófi RÚV fyrir sveitarstjórnarkosningarnar ekki stangast á við stefnu minnihlutans í málefnum heimilislausra nú.

Snæbjörn Brynjarsson, rithöfundur og varaþingmaður Pírata, vakti athygli á umræddu svari Eyþórs á Twitter-reikningi sínum í dag. Líkt og fjölmargir aðrir frambjóðendur tók Eyþór kosningapróf RÚV í vor og tók þar afstöðu til ýmissa mála. Í prófinu lýsti Eyþór sig algjörlega ósammála eftirfarandi fullyrðingu: „Sveitarfélagið á að leggja aukna áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis.“Þótti svar Eyþórs ekki koma heim og saman við afstöðu hans og Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum nú. Eins og greint hefur verið frá undanfarna daga hefur flokkurinn, ásamt hinum flokkum minnihlutans í borgarstjórn, gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir að hafa hundsað bága stöðu heimilislausra og félagslegs húsnæðis í Reykjavík um langa hríð.

Aðspurður segir Eyþór að svar sitt í kosningaprófinu stangist ekki á við gagnrýni Sjálfstæðisflokksins.

„Nei alls ekki, vegna þess að við viljum breyta kerfinu en ekki stækka það sem ekki virkar.“

Skjáskot af svari Eyþórs við spurningu um uppbyggingu félagslegs húsnæðis í kosningaprófi RÚV. Skjáskot/RÚV

Um ástæður þess að hann sagðist svo ósammála uppbyggingu félagslegs húsnæðis segir Eyþór að henn leggi höfuðáherslu á að byggja hagkvæmt húsnæði fyrir sem flesta í Reykjavík.

„Félagsleg úrræði eru oft neyðarúrræði og mér finnst áherslan á að fjölga í kerfinu ekki vera aðalatriðið heldur að koma í veg fyrir að fólk lendi í félagslega kerfinu, þess vegna setti ég það ofar.“

Sjá einnig: Segja meirihlutann hafa fengist til að viðurkenna húsnæðisvanda

Í þessu samhengi þurfi einnig að hjálpa fólki að komast út úr félagslega kerfinu, sem Eyþóri þykir ábótavant hjá Reykjavíkurborg. „Það er kannski hin ástæðan fyrir því að þetta var ekki sett efst á listann.“

Þá bætir Eyþór við að heimilislausum hafi fjölgað um 95 prósent á örfáum árum og þetta fólk vanti ódýrari úrræði en í boði eru.

„Því að þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi sett svona mikinn pening í félagslegt húsnæði þá er vandinn mestur í Reykjavík. Þannig að það er eitthvað annað að,“ segir Eyþór.


Tengdar fréttir

Segja meirihlutann hafa fengist til að viðurkenna húsnæðisvanda

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með að neyðarfundur í borgarráði í gær bar ekki þann árangur sem vonir stóðu til um. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum vegna neyðarfundar borgarráðs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.