Innlent

Rafrettur notaðar til að neyta kannabisefna

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Einn af hverju fimm sem kemur í meðferð á Vogi notar kannabisolíu með rafrettum eða svokölluðum veipum. Yfirlæknir á Vogi segir þetta nýja leið sem einstaklingar nota til að neyta kannabisefna.

Vinsældir veipsins eða rafrettunnar hafa farið vaxandi síðustu ár en hún var upphaflega hugsuð fyrir þá sem vildu hætta að reykja. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir að næstum því helmingurinn af þeim sem koma á Vog og nota kannabis reglulega, virðist fikta við að setja kanabisoliu með í rafretturnar sínar.

„Við tókum eftir því í fyrra að það voru margir að segja frá því að þeir notuðu kanabisolíu í rafsígarettu og er það nýtt hjá okkur. Við höfum gert könnun mánaðarlega um leið og við gerum verðkönnun og spurt út í þetta. Frá því við byrjuðum að athuga þetta í október á síðasta ári þá eru það sirka 20 prósent af öllum þeim sem koma til okkar sem hafa gert þetta, notað kannabisvökva í rafrettu,” segir hún.

Foreldri sem fréttastofa ræddi við segist sjá þetta sem vaxandi vandamál meðal ungmenna og bendir á að mikilvægt sé að foreldrar fylgist með hvaða olíur er verið nota í rafretturnar.

Valgerður segir það yngsta hópinn, einstaklingar á aldrinu 20-30 ára, sem notar kannabis mest.

„Veipið er ný leið til að koma kannabisefnum í sig. Það kannski fylgir bara þessari nýju bylgju af reykingum, það er að segja þessum rafrettum,” segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×