Innlent

Vatn flæðir yfir þjóðveg 1 og hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá þjóðvegi 1 við afleggjarann að Skál þar sem flæddi yfir veginn í gær.
Frá þjóðvegi 1 við afleggjarann að Skál þar sem flæddi yfir veginn í gær. Vísir/Einar árnason

Vatn úr Skaftárhlaupi byrjaði að flæða yfir þjóðveg 1 rétt vestan við útsýnispall í Eldhrauni í Skaftárhreppi í morgun. Veginum hefur ekki verið lokað en hámarkshraði hefur verið lækkaður niður í 30 kílómetra á klukkustund, að sögn lögreglu á Suðurlandi.

Starfsmenn Vegagerðarinnar tóku ákvörðun um lækkun hámarkshraða um veginn. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að fylgst verði náið með stöðunni í dag en heilmikið vatn flæðir yfir veginn. Vatn fór ekki yfir þjóðveg 1 á þessum stað í síðasta Skaftárhlaupi árið 2015.

„Á árum áður fór alltaf vatn yfir veginn en hann var hækkaður töluvert upp. Þetta flaut ekki yfir síðast en svo er hraunið væntanlega orðið þéttara núna eftir setlagið sem kom þá og grunnvatnsstaðan er hærri eftir þessar rigningar,“ segir Sveinn Kristján.

Aðspurður segir hann afar litla umferð hafa verið á svæðinu það sem af er morgni. Vegurinn verði þó áfram mannaður frameftir degi og staðan endurmetin ef þarf.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands fer Skaftárhlaup nú hægt minnkandi og hefur hlaupið þegar náð hámarki. Mun áhrifa hlaupsins gæta nokkuð næstu daga og gert er ráð fyrir að Skaftá muni ekki ná eðlilegu rennsli á ný fyrr en síðar í vikunni.


Tengdar fréttir

Ferðamenn fengu nokkrar mínútur til að forða sér

Skaftárhlaup hefur haft mikil áhrif á ferðalanga á svæðinu frá því það hófst. Hópur í hestaferð þurfti að yfirgefa Hólaskjól á föstudagskvöldið á nokkrum mínútum eftir að brennisteinsmælir fór í gang. Skilja þurfti sextíu hesta eftir um tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.