Innlent

Innlyksa vegna Skaftárhlaups

Jóhann K. Jóhannsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Fjölskyldan hefur verið í sumarhúsinu, sem er gamall bóndabær, frá því fyrir helgi.
Fjölskyldan hefur verið í sumarhúsinu, sem er gamall bóndabær, frá því fyrir helgi. Vísir/Einar Árnason

Sigurður Jónasson er ásamt fjölskyldu sinni innlyksa í sumarhúsi í Skaftárdal, innst í Skaftártungu vegna Skaftárhlaups.

Fjölskyldan hefur verið í sumarhúsinu, sem er gamall bóndabær, frá því fyrir helgi.  Ætli þau að komast í burtu frá bænum þurfa þau að fara erfiða og langa fjallabaksleið en fjölskyldan er þó hvergi bangin.

„Það er tignarlegt að vera í hásæti hér og horfa á þetta, fyrst þetta þarf að koma,“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu. Fjölskyldan hafi fylgst með hlaupinu út um glugga sumarhússins.

Fjölskyldan er örugg þar sem hún er því útlit er fyrir að rennslið sé í rénun og hið versta afstaðið. Tvær brýr liggja að bænum og enn sem komið er halda þær báðar.  Aftur á móti hefur grafið í sundur beggja vegna annarrar þeirra og beljar fljótið á brúarstöplunum.

„Við bara horfum á þetta út um gluggann hjá okkur og við náttúrulega komumst aldrei til baka þótt vatnið hverfi því það er allt vegarsamband farið,“ segir Sigurður um áhrif Skaftárhlaups.

Á myndinni sést gamli bóndabærinn þar sem Sigurður og fjölskylda eru föst.Vísir/Jói K/Einar Árnason
Einar Árnason, tökumaður okkar tók myndina á dróna. Þar sést hvernig fljótið beljar á brúarstöplunum.Vísir/Einar Árnason

Tengdar fréttir

Báðir katlarnir að tæma sig samtímis í fyrsta sinn

Báðir Skaftárkatlar eru nú að tæma sig og má því gera ráð fyrir að vatn í Skaftá muni hækka enn frekar á næstu klukkustundum. Þetta ku vera í fyrsta sinn sem hleypur bæði úr Vestari og Eystri-Skaftárkatli samtímis frá því að byrjað var að fylgjast með hlaupum.

Rennsli eykst hratt í Skaftá

Vatn úr Skaftárhlaupi náði fyrsta mæli við Sveinstind um klukkan 13:15 í dag, að sögn Snorra Zóphoníassonar, sérfræðings Veðurstofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×