Innlent

Reglum um hvalskurð var aldrei fylgt

Sveinn Arnarsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. Fréttablaðið/Ernir
Hvalur hf. fór aldrei að hertum reglum um hvalskurð frá árinu 2009. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra slakaði á kröfunum sem hið opinbera setur um hvalskurð nú sumarbyrjun.

Árið 2009 tók í gildi reglugerð um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum. Í henni var kveðið á um að hvalskurður skuli hefjast um leið og hvalur er kominn á land og að skurðarflöturinn skuli vera innandyra. Það ákvæði kom þó ekki til áhrifa fyrr en ári seinna, árið 2010.

„Það er rétt að það hefur aldrei verið yfirbyggður skurðarflötur hjá Hval hf. eins og reglugerðin sagði til um,“ segir Freydís Dana Sigurðardóttir, fagsviðstjóri eftirlits búfjárafurða hjá Matvælastofnun, sem hefur eftirlit með starfsemi hvalveiðifyrirtækja Þessu ákvæði var því aldrei fylgt við skurð á stórhvelum. Hvalskurður átti að framkvæma innandyra þar sem um matvæli er að ræða.Skjáskot
Hvalur hf. virti þannig ákvæðið að vettugi án þess að Matvælastofnun stöðvi framleiðsluna eða krefji fyrirtækið um að gera eitthvað til að framfylgja reglugerðinni.

„Þessu ákvæði var breytt með reglugerð og ekki er lengur gerð krafa um yfirbyggðan skurðarflöt, heldur þarf viðeigandi varnir til að koma í veg fyrir mengun afurða skv. áhættumati sem rekstraraðili gerir,“ segir Viktor Pálsson, lögfræðingur Matvælastofnunar.

Starfsleyfi Hvals hf., rennur út 15. september. Í leyfinu segir að fyrirtækið skuli uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar í lögum og reglugerðum. Í eftirliti MAST hinn 12. júní síðastliðinn voru gerðar sjö athugasemdir sem töldust frávik frá starfsleyfi fyrirtækisins. Í aukaeftirliti að tveimur vikum liðnum voru enn sex frávik skráð frá starfsleyfi. Fréttablaðið hefur ekki vitneskju um að gerð hafi verið önnur úttekt eftir það.

Hvalur hf. hefur leyfi til að veiða rúmlega 160 langreyðar á þessari vertíð og er jafnframt eina hvalveiðistöðin í heiminum í dag sem veiðir stórhveli.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.