Erlent

Sakar Rússa um að nota Bretland sem „ruslatunnu“ fyrir eitur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangsrannsókn lögreglu í Amesbury í dag.
Frá vettvangsrannsókn lögreglu í Amesbury í dag. vísir/ap

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, sakar rússnesk stjórnvöld um að nota Bretland sem „ruslatunnu“ fyrir eitur eftir að í ljós að komið að parið sem veiktist af völdum taugaeitursins novichok hafði handleikið einhvern hlut sem reyndist eitraður.

Javid segir að bresk yfirvöld muni ráðfæra sig við bandamenn sína varðandi möguleg viðbrögð gagnvart Rússum og hann hvetur rússnesk stjórnvöld til þess að útskýra „hvað sé eiginlega í gangi.“

Eitrið sem varð til þess að parið Dawn Sturgess og Charlie Rowley veiktust alvarlega er sama eitur og var notað til að eitra fyrir fyrrverandi rússneska njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans, Júlíu. Þau veiktust í Salisbury en Sturgess og Rowley bjuggu í Amesbury, skammt frá Salisbury.

Eftir taugaeitursárásina á Skripal-feðginin í mars síðastliðnum vöruðu yfirvöld í Salisbury almenning við því að taka upp óþekkta hluti. Ákveðið var að fara ekki í allsherjar athugun á því í bænum hvort að eitrið leyndist víðar en þar sem eitrað var fyrir feðginunum en yfirvöld sögðu að þau gætu ekki útilokað að meira af taugaeitrinu væri í bænum.

„Það er unnið út frá því að parið hafi komist í snertingu við taugaeitrið annars staðar en þar sem hreinsað var upp eftir árásina í Salisbury,“ sagði innanríkisráðherrann í dag.

Rússnesk yfirvöld hafa neitað því að hafa eitthvað með eitrunina í Amesbury að gera og hafa boðið fram aðstoð sína við rannsókn málsins, líkt og þau gerðu í tilfelli Skripal-feðginanna.

„Augu allra beinast nú að Rússlandi, ekki síst vegna Heimsmeistarakeppninnar. Það er kominn tími til að rússnesk yfirvöld stígi fram og útskýri hvað sé á seyði. [...] Við munum mæta öllu því sem ógnar öryggi okkar og bandamanna. Það er óásættanlegt að landsmenn séu skotmörk, hvort sem það er vísvitandi eða óvart, og að strætin, garðar og bæir séu ruslatunnur fyrir eitur,“ sagði Javid á breska þinginu í dag.


Tengdar fréttir

Óttast aðra eitrun í Salisbury

Viðbúnaður er mikill í héraðinu Wiltshire á Englandi eftir að par, karl og kona á fertugsaldri veiktust alvarlega af völdum eitrunar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.