Innlent

Hítará hefur fundið sér nýjan farveg

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Kjartan Kjartansson skrifar
Skriðan rann yfir farveg Hítarár sem stíflaðist.
Skriðan rann yfir farveg Hítarár sem stíflaðist. Jón G. Guðbrandsson
Íbúi í Hítardal segir að Hítará hafi fundið sér nýjan farveg fram hjá skriðunni miklu sem féll úr Fagraskógarfjalli í gær. Ofanflóðasérfræðingur Veðurstofunnar segir starfsmenn hennar að störfum í dalnum í dag við mælingar á skriðunni og lóninu sem hefur myndast fyrir ofan hana.

Erla Dögg Ármannsdóttir á bænum Hítardal í samnefndum dal segir lónið líta svipað út og í gærkvöldi. Í það minnsta hafi ekki lækkað í því. Skriðan rann yfir farveg Hítarár og stíflaði hana.

„Áin hefur fundiðst sér farveg fram hjá skriðunni og kannski þann farveg sem við vorum að vonum að hún myndi finna sér,“ segir hún.

Vatnið leitar nú í Tálma, hliðará Hítarár. Erla Dögg segir að vatnið í Tálma sér nú farið að aukast.

Leiddar hafa verið líkur að því að vætutíðin undanfarið hafi komið skriðunni af stað. Þannig sagði Finnbogi Rögnvaldsson, jarðfræðingur, að rigningarvatn hefði safnast upp í gömlum jarðskjálftasprungum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þrýstingur af völdum vatnsins hefði valdið því að stór spilda féll úr fjallinu í gærmorgun.

Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að rúmlega 200 millímetrar regns hafi mælst í Fíflholti, nærri Hítardal, frá 1. apríl. Úrkoman hafi verið nokkuð jöfn á tímabilinu og engar stórrigningar.

Hann segir sérfræðinga að störfum á skriðusvæðinu í dag. Þeir ætli að mæla skriðuna, upptök hennar og úthlaupið. Vatnasérfræðingur fylgist einnig með vatnssöfnun fyrir ofan stífluna og rennsli Hítarár.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.