Heimsmeistararnir úr leik í riðlakeppninni í fyrsta skipti í 80 ár

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þjóðverjar gátu ekki skorað í dag.
Þjóðverjar gátu ekki skorað í dag. Vísir/Getty
Ríkjandi heimsmeistarar, Þjóðverjar, eru úr leik á HM 2018 í Rússlandi eftir að liðið tapaði 2-0 gegn Suður-Kóreu á Kazan-leikvanginum í dag. Bæði mörkin komu í uppbótartíma.

Þetta er í fyrsta skipti á HM sem Þjóðverjarnir fara ekki upp úr riðlinum í HM-sögunni en upp úr F-riðlinum fara Svíþjóð og Mexíkó.

Í fyrri hálfleik var ekki mikið að gerast hjá Þjóðverjunum. Þeir reyndu og reyndu en náðu illa að brjóta niður þéttan varnarmúr Suður-Kóreu og Cho Hyun-Woo átti afar góðan leik í markinu.

Ef eitthvað er áttu Suður-Kóreu menn hættulegustu færin í fyrri hálfleik. Framlína Þjóðverja náðu sér ekkert á strik og menn eins og Timo Werner, Mesut Özil og fleiri náðu ekki að komast í takt leikinn.

Staðan var markalaus í hálfleik og Þjóðverjarnir mættu örlítið ákveðnari í síðari hálfleik. Þeir náðu þó ekki að skapa sér mörg opin tækifæri en þeim fjölgaði þegar leið á.

Táknræn mynd í leikslok.vísir/getty
Besta færið fékk líklega Mats Hummels þremur mínútum fyrir leikslok. Mesut Özil kom þá með frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Hummels en skalli hans fór yfir markið af markteignum.

Það var svo í uppbótartíma sem Suður-Kórea komst yfir. Eftir hornspyrnu barst boltinn til Kim Young-Gwon og hann kom boltanum í netið. Fyrst um sinn dæmdi dómarinn rangstöðu en eftir VAR-tæknina dæmdi hann mark. Hárréttur dómur.

Þjóðverjarnir voru svo allir komnir fram er Son Heung-Min skoraði í autt markið í uppbótartímanum eftir langa sendingu fram völlinn. Fyrsta Asíu-liðið til þess að vinna heimsmeistara í opinberum leik.

Þetta er í fyrsta skipti síðan á HM 1938 sem Þjóðverjarnir komast ekki upp úr riðlinum en síðustu fjórar keppnir hafa þeir farið alla leið í undanúrslit.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira