Fótbolti

Fyrirliðinn, Alfreð og Birkir Bjarna tóku því rólega

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Birkir Bjarnason, í íþróttaskóm, á léttu skokki með Friðriki Ellerti Jónssyni, sjúkraþjálfara liðsins.
Birkir Bjarnason, í íþróttaskóm, á léttu skokki með Friðriki Ellerti Jónssyni, sjúkraþjálfara liðsins. Vísir/Vilhelm
Í kringum eitt þúsund manns fylgdust með æfingu strákanna okkar fyrir opnum tjöldum í Gelendzhik í dag. Sólin skein og iðagrænt og nývökvað gras beið leikmanna landsliðsins. Tuttugu af tuttugu og þremur leikmönnum landsliðsins tóku þátt af fullum krafti en þrír voru á séræfingum vegna meiðsla sinna.

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði glímir við meiðsli og tók því rólega á æfingunni. Sömu sögu er að segja um Alfreð Finnbogason og Birki Bjarnason sem einnig virðast glíma við smávægileg meiðsli. Birkir Bjarnason var í æfingum hjá Friðrik Ellerti Jónssyni og Aron Einar notaði líka tímann til að fara yfir málin með formanni landsliðsnefndar, Magnúsi Gylfasyni.

Æfingin stóð yfir í tæpa tvo tíma. Strákarnir byrjuðu á léttri upphitun með teygju- og styrktaræfingum. Í framhaldinu voru sendinga- og skotæfingar áður en spil á háu tempói á stuttum velli tók við. Mikill hiti er í bænum eða tæplega 30 stig en hún hófst klukkan 11:30 að staðartíma. Strákarnir eru duglegir að vökva sig og nota sólarvörn.

Ágæt stemmning var í stúkunni við æfingasvæðið þar sem fólk á öllum aldri lét stundum ágætlega í sér heyra. Þó vantaði tilfinnanlega einhvern til að stjórna stemmningunni. Ungir iðkendur frá fótboltaskólanum Volna fylgdust spenntir með kempunum.

Vísir verður með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×