Lífið

Tísti um „lága greindarvísitölu“ De Niro en gerði sjálfur stafsetningarvillu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti notar gjarnan Twitter til að skjóta á pólitíska andstæðinga sína.
Donald Trump Bandaríkjaforseti notar gjarnan Twitter til að skjóta á pólitíska andstæðinga sína. Vísir/AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti skaut á bandaríska leikarann Robert de Niro á Twitter í kvöld eftir að sá síðarnefndi formælti forsetanum á sviði þegar Tony-verðlaunin voru afhent á sunnudagskvöld. Athygli vekur að Trump sagði de Niro með „lága greindarvísitölu“ en gerði sjálfur stafsetningarvillu í tísti sínu.

„Robert de Niro, einstaklingur með mjög lága greindarvísitölu, hefur hlotið of mörg högg á höfuðið af hendi alvöru hnefaleikamanna í kvikmyndum,“ skrifaði Trump í tísti sem birtist á Twitter-reikningi hans í kvöld. Glöggir sjá að forsetinn stafsetur þar orðið „too“, sem á íslensku útleggst sem „of“, með einu o-i þar sem ættu að vera tvö.

„Ég horfði á hann í gærkvöldi og ég trúi því í einlægni að hann gæti verið „vankaður“ (e. punch-drunk),“ bætti Trump við.

Tíst Trumps, með stafsetningarvillunni, sem hann birti í gær. Tístunum var eytt skömmu síðar og endurbirt, villulaus, daginn eftir. Skjáskot/Twitter

Þar vísaði Trump líklega til kvikmyndarinnar Raging Bull, sem kom út árið 1980, en þar fór de Niro með hlutverk hnefaleikakappans Jake LaMotta. Þá lék hann einnig hnefaleikamann í kvikmyndinni Grudge Match frá árinu 2013.

Ummæli de Niro um Trump voru ritskoðuð á sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld en hann fór þar ófögrum orðum um forsetann.

„Ég vil bara segja eitt. Svei Trump [e. Fuck Trump]. Þetta er ekki lengur niður með Trump. Þetta er svei Trump,“ sagði de Niro.

Þá notaði Trump, sem er nýlokinn við sögulegan fund sinn og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, einnig tækifærið á Twitter í kvöld og hældi sjálfum sér fyrir velgengni í starfi. Þetta taldi Trump de Niro líklega ekki meðvitaðan um og bað leikarann, sem hann kallaði „Punchy“, að ranka við sér.

Uppfært 13. júní kl. 11:50:
Trump eyddi upphaflegu tístunum með stafsetningarvillunni skömmu eftir að hann birti þau. Ný tíst, án villunnar, litu dagsins ljós nú í morgun að íslenskum tíma en þau má sjá hér að neðan.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.