Fráfarandi sveitarstjórn kærir niðurstöðu kosninga í Dalabyggð

Fráfarandi sveitarstjórn Dalabyggðar hefur kært niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru þann 26. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram í frétt á vefnum Búðardalur.is.
Kosningakæran er rakin til undirskriftarlista sem Eyjólfur Ingi Bjarnason, nýkjörinn oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar, afhenti þáverandi sveitarstjórn í maí. Nú setur fyrrverandi sveitarstjórn, ásamt Sveini Pálssyni sveitarstjóra, út á framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar og telur hana vera langt frá því verklagi sem fyrirskrifað er í reglugerð um undirskriftasafnanir af þessu tagi.
Sveinn sendi fyrirspurn til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þann 7. júní síðastliðinn varðandi íbúakosningu, undirskriftalista og sveitarstjórnarkosningarnar og var þess óskað að ráðuneytið rannsakaði aðdraganda og niðurstöðu kosninganna í Dalabyggð.
Ráðuneytið mun hafa svarað samdægurs og mun skoða framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar en lítur á síðari hluta erindis sveitarstjórnar sem kosningakæru og vísar því áfram til Dómsmálaráðuneytisins. Dómsmálaráðuneytið vísar erindinu áfram til Sýslumannsins á Vesturlandi til þóknanlegrar meðferðar með bréfi dagsettu 11.júní síðastliðinn.
Fimm af sjö fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum Dalabyggðar samþykktu þetta.
Tengdar fréttir

Skagafjarðarsýsla hlaut hæstu einkunn en Dalabyggð þá lægstu
Óhamingja ungs fólks er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir landsbyggðina að mati hagfræðings sem stóð að rannsókn á högum landsmanna.

Húsfyllir í Dalabúð vegna íbúafundar um vindorkuver
Fjárfestar skoða nú kosti þess að byggja upp vindorkuvirkjanir í Dölum. Um milljarða fjárfestingu er að ræða en uppbyggingin hefur lítið sem ekkert verið kynnt íbúum.

Forsetahjónin heimsækja Dalabyggð
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og frú Eliza Reid fara í opinbera heimsókn í Dalabyggð næstkomandi miðvikudag og fimmtudag.