Erlent

Eldfimt ástand í Jórdaníu eftir fjölmennustu mótmæla í áraraðir

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Jórdaníu hefur til þess að mestu sloppið við þau átök og róstur sem einkenna mörg grannríki þeirra fyrir botni Miðjarðarhafs
Jórdaníu hefur til þess að mestu sloppið við þau átök og róstur sem einkenna mörg grannríki þeirra fyrir botni Miðjarðarhafs Vísir/Getty
Öldungadeild jórdanska þingsins kom saman á neyðarfundi í dag eftir langfjölmennustu mótmæli sem sést hafa í landinu í áráraðir. Mótmælendur krefjast þess að ríkisstjórnin segi af sér og hætti við að fylgja fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð og skattahækkanir.

Um þrjú þúsund manns reyndu að komast alla leið að forsætisráðuneytinu í Amman en komust ekki langt vegna mikils viðbúnaðar óeyrðarlögreglu. Mótmælin hófust á miðvikudaginn þegar verkalýðsfélög hvöttu almenning til að rísa upp gegn óstjórn og fátækt.

Öryggissveitir hafa verið fjölmennar i höfuðborginni og beitt táragasi nokkrum sinnum en lítið hefur verið um hörð átök. Einn mótmælandi sem sjónvarpsstöðin Al Jazeera ræddi við sagði þó að þetta gæti ekki haldið svona áfram lengi. Á milli mótmæla væri fólk að róta í ruslatunnum og gámum til að finna mat fyrir sig og börnin sín.

Kaupmáttur almennings í Jórdaníu fer hratt lækkandi, atvinnuleysi er mikið og matvæla og aðrar nauðsynjar hækka sífellt í verði. Eldsneytisverð hefur hækkað fimm sinnum það sem af er þessu ári og rafmagn er 55% dýrara en það var í febrúar. Atvinnuleysi er 19% og fimmtungur þjóðarinnar er undir fátæktarmörkum.

Þær tillögur AGS að hækka skatta, afnema niðurgreiðslur og draga úr þjónustu hafa skiljanlega mælst afar illa fyrir meðal almennings við þessar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×