Fótbolti

Jóhann Berg: Eins gott að við verðum ekki þungir í næsta leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, vængmaður Íslands, segir að það hafi verið svekkjandi að missa leikinn gegn Gana niður í jafntefli en liðin skildu jöfn á Laugardalsvelli í kvöld, 2-2.

„Þetta er svekkjandi. Við eigum að vinna svona leiki og við gerum það venjulega,” sagði Jóhann Berg í samtali við Arnar Björnsson í leikslok.

„Þetta var mjög lélegur seinni hálfleikur eftir frábæran fyrir hálfleik. Seinni hálfleikurinn var bara alls ekki nógu góður,” en voru leikmenn Íslands þungir í seinni hálfleik?

„Já, ég veit ekki afhverju það var. Svona er þetta og það er eins gott að við verðum ekki svona þungir í næsta leik. Það er alvöru leikur.”

„Það er eina sem skiptir máli en auðvitað er þetta svekkjandi,” en níu dagar eru þangað til að flautað verður til leiks hjá Íslandi í Argentínu.

„Frábær fyrri hálfleikur og seinni hálfleikurinn var lélegur. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga fyrir stóru stundina.”

Ísland tók sig ansi góðan tíma í innköst og föst leikatriði er líða fór á leikinn. Jóhann segir að þetta hafi ekki verið taktík heldur bara gerst í leiknum.

„Þetta gerðist bara en við tókum tíma í þetta og stillum upp. Við viljum skora úr föstu leikatriðunum og kannski var þetta bara ekki nægilega mikill kraftur í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var ekki nógu góður.”

„Við erum svekktir í kvöld, á morgun er nýr dagur og svo á laugardaginn förum við til Rússlands. Þá byrjar alvaran,” sagði Jóhann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×