Innlent

Nýr bæjarstjóri verði að hafa ástríðu fyrir svæðinu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, segir að flokkarnir í meirihluta stefni á að undirrita málefnasamning á þriðjudag.
Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, segir að flokkarnir í meirihluta stefni á að undirrita málefnasamning á þriðjudag. Vísir/Auðunn Níelsson

Samfylking, Framsóknarflokkur og L-listi hafa náð saman um myndun meirihluta á Akureyri en málefnasamningur verður um helgina lagður fyrir bakland flokkanna til samþykktar. Að því gefnu að félagsmenn ljái samningnum samþykki sitt koma talsmenn meirihlutasamstarfsins til með að kynna efni nýs málefnasamnings fyrir bæjarbúum á þriðjudag, áður en bæjarstjórnarfundur er settur.

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar, segir í samtali við Vísi að félagsmenn Samfylkingarinnar hefðu á undanförnum dögum komið að málefnavinnu meirihlutans en um helgina verður farið yfir málefnasamninginn á breiðari og formlegri grundvelli.

Oddvitar flokkanna þriggja sögðu í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að þeir vildu faglega ráðinn bæjarstjóra en Hilda Jana segir að flokkarnir séu enn sömu skoðunar. Áframhaldandi meirihluti kemur því til að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra því Eiríkur Björn Björgvinsson, núverandi bæjarstjóri á Akureyri, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi starfa.

Hér má sjá bæjarfulltrúa á Akureyri á komandi kjörtímabili. vísir/Gvendur

En hvaða eiginleikum þarf nýr bæjarstjóri á Akureyri að búa yfir og eftir hverju leitið þið?

„Við erum að leita að hinni fullkomnu mannveru,“ segir Hilda Jana og skellir upp úr. „Nei nei, við erum að leita að einhverjum sem annars vegar leiðir stjórnsýslu bæjarins og meirihlutasamstarfið en á sama tíma getur bætt við þann hóp sem er í meirihluta; er með aðra styrkleika sem eru mikilvægir. Þetta er ennþá ekkert ákveðið en ég held að það yrði líka mikilvægt að viðkomandi þekkti til stjórnsýslunnar hjá ríkisvaldinu af því það eru stór mál sem eru framundan: Millilandaflug, tengsl við Isavia, raforkuflutningsgjöld, stofnsamningar vegna öldrunarmála, menningarmál og fleira. Það er þetta sem ég hef á bakvið eyrað en við eigum eftir að setja þetta niður,“ segir Hilda Jana sem bætir við að nýr bæjarstjóri verði að hafa ástríðu fyrir svæðinu.

Í málefnasamningi, sem verður kynntur ítarlega á þriðjudag, eru leikskólamálin í brennidepli: „Það gefur augaleið að það sem við töluðum öll mest um í kosningabaráttunni eru leikskólamálin. Það verður mikil áhersla á þau. Það er eitthvað sem allir eru sammála um að þurfi að taka alvarlega. Það er stóra málið.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.