Sjá einnig: Leita manns í Ölfusá
Viðar Arason hjá aðgerðastjórn björgunarveita í Árnessýslu segir í samtali við Vísi að um níutíu björgunarsveitarmenn séu nú við leit í og við Ölfusá.
„Staðan er svoleiðis að við erum með níutíu björgunarsveitarmenn frá öllum svæðum í kringum okkur, frá Vík í Mýrdal að Borgarnesi og Akranesi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu í leit.“
Viðar segir leitaraðstæður mjög krefjandi. Mikil úrkoma og vindur er á svæðinu auk þess sem Ölfusá er vatnsmikil vegna rigninga síðustu daga.

„Við erum með gönguhópa sem fara fram og til baka eftir ánni, björgunarbáta og jetski. Svo erum við með sérhæfða björgunarmannahópa sem vaða í grynningarnar,“ segir Viðar.
Þá segir hann leitina aðallega fara fram við þann hluta árinnar sem nær frá Kaldaðarnesi að flúðunum við Kirkjugarð Selfossbæjar. Tekið sé mið af öðrum tilfellum um menn sem farið hafi í Ölfusá.
„Við erum að vinna með, því miður, reynslu af því hvar við höfum fundið einstaklinga á lífi og látna í gegnum tíðina. Þannig að við vitum svona hvar punktarnir eru og erum því að einblína á þá staði sem við þekkjum.“

