Erlent

Maduro endurkjörinn forseti Venesúela

Andri Eysteinsson skrifar
Nicolas Maduro fagnar sigri í kosningunum í nótt.
Nicolas Maduro fagnar sigri í kosningunum í nótt. Vísir/EPA
Nicolas Maduro var í gær endurkjörinn forseti Suður-Ameríkuríkisins Venesúela. Maduro, sem tók við embættinu árið 2013 eftir andlát Hugo Chavez, hlaut 68% atkvæða gegn 21% helsta keppinautar síns, Henri Falcon samkvæmt frétt BBC. Maduro tryggði sér því forsetaembættið til 6 ára. Andstæðingar forsetans hafa lýst yfir óánægju sinni yfir framkvæmd kosninganna.

Helstu andstæðingar forsetans höfðu fyrir kosningar, margir hverjir verið fangelsaðir, meinað að bjóða sig fram eða höfðu farið í sjálfskipaða útlegð. Af þeim sökum kallaði stjórnarandstaðan eftir því að fylgismenn hennar myndu sniðganga kosningarnar.

Engu að síður bauð fyrrum sósíalistinn og núverandi stjórnarandstöðuliðinn Henri Falcon sig fram og reyndist helsti andstæðingur Maduro. Eftir að niðurstöður lágu fyrir voru Falcon og stjórnarandstaðan gagnrýnin á lögmæti kosninganna.

Mikill vöruskortur er í Venesúela og hefur ríkisstjórnin gefið út svokölluð föðurlandskort, sem sýna þarf á tilteknum stöðvum til að fá matargjafir. Slíkar stöðvar voru settar upp víða við hlið kjörstaða landsins. Falcon tilkynnti að af þeim sökum viðurkenndi hann ekki niðurstöður kosninganna og kallaði eftir nýjum kosningum. Annar frambjóðandi, Javier Bertucci, hvatti Maduro til að bjóða sig ekki fram ef til nýrra kosninga yrði boðað.

Sniðganga stjórnarandstöðunnar hafði þau áhrif að kjörsókn var mun lægri en í fyrri kosningum, einungis 46% samkvæmt opinberum tölum en hafði verið um 80% í kosningunum 2013. Stjórnarandstaðan hefur gefið út að opinberar tölur séu rangar og að kjörsókn hafi í raun verið nær 30%.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×