Meðan það var rok og rigning í borginni mætti okkur veðurblíða á Ströndum í dag þegar flugvél Ernis flaug inn til lendingar á Gjögri. Það er hins vegar ekkert logn í pólitíkinni í þessu minnsta sveitarfélagi landsins. Þar geisar stormur vegna virkjunar og tilrauna til stórfelldra lögheimilisflutninga.
Síðastliðinn föstudag, eftir rannsókn Þjóðskrár Íslands, féllu úr gildi 12 af 18 lögheimilisskráningum inn í Árneshrepp fyrir þessar kosningar. Í dag var sú þrettánda felld úr gildi, en ein samþykkt gild, og enn á eftir að útkljá fjórar.
Bæði oddvitinn og tveir fulltrúar minnihlutans báðust undan viðtali í dag en á bænum Steinstúni hittum við einn af þremur fulltrúum meirihlutans, Guðlaug Ágústsson bónda.
„Það er ótrúlegt að það skuli vera til fólk sem er til í að gera svona árásir á sveitarfélög, - árás á svona lítil sveitarfélög, sem mega sín kannski lítils. Að það skuli flykkjast eitthvað fólk út af einhverju einu málefni, í hvora áttina sem það hyggst nú kjósa. Þetta er í rauninni bara alveg ótrúlegt að það sé til fólk sem hugsar svona,“ segir Guðlaugur.

-Því er haldið fram að þetta hafi verið skipulögð aðgerð og jafnvel að þessu hafi verið stjórnað frá ykkar heimili. Hvað er hæft í því?
„Það er nú ekkert til í því, allavega með þetta hvað varðar okkar heimili. En ég er hins vegar náttúrlega búinn að tala við eitthvað af þessu fólki núna eftir að allt þetta kom upp. Og það er alveg ljóst í mínum huga að það er fullt af fólki af þessum hópi, allavega tíu manns eða eitthvað, sem hafa fullkomlega réttmæta ástæðu fyrir því að flytja í þennan hrepp. Þannig að ég skil ekki alveg málatilbúnaðinn, satt að segja,“ segir Ólafur.
„Að flytja lögheimili sitt á staði þar sem eru ekki einu sinni vegir, net, - ekki einu sinni símasamband. Ekkert. Meira að segja upp í elstu ellilífeyrisþega. Það er með ólíkindum,“ segir Guðlaugur.

-En að skrá heimili sitt á eyðibýlum sem eru fjarri mannabyggð og aldrei komist í vegasamband?
„Það eru mörg svoleiðis býli hér í sveitinni þar sem fólk býr yfir sumartímann og er með lögheimili þar,“ svarar Ólafur.
„Maður spyr sig: Ætlar þetta fólk að fara að búa á þessum stöðum og taka þátt í samfélaginu hér í Árneshreppi? Ég veit að svarið er nei vegna þess að það hefur ekki einu sinni fengið heimild hjá eigendum jarðanna og húsanna til þess að flytja inn í þessa staði,“ segir Guðlaugur.
Síðasta orðið í kjörskrármálum verður ekki sagt á hreppsnefndarfundinum í kvöld, kærurnar hafa streymt inn í dag en gera má leiðréttingar á kjörskrá alveg fram á kjördag.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: