Innlent

Framsýn leggur einnig til vantraust á forseta ASÍ

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, telur að forseti ASÍ vinni ekki með sínu fólki.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, telur að forseti ASÍ vinni ekki með sínu fólki. Vísir/Völundur
Stjórn verkalýðsfélagsins Framsýnar ætlar að leggja fram tillögu um að félagið lýsi yfir vantrausti á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands, á aðalfundi sínum í kvöld. Tvö önnur verkalýðsfélög hafa þegar lýst vantrausti á forsetann. Formaður Framsýnar segir tíma til kominn að skipta um skipstjóra í brúnni.

VR og Verkalýðsfélag Akraness hafa þegar lýst yfir vantrausti á Gylfa. RÚV sagði frá því nú síðdegis að stjórn Framsýnar, verkalýðsfélags Þingeyinga, ætli að leggja fram tillögu um vantraust á forseta ASÍ á aðalfundi sem hefst kl. 20 í kvöld.

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, vísar til óánægju með forsetann og vilja til breytinga í forystu ASÍ í samtali við Vísi. Gylfi hafi ekki umboð Framsýnar og ákveðinna félaga til að ræða við stjórnvöld. Þau telji hann ekki vinna með sínu fólki.

Verkalýðsfélögin eru nú byrjuð að leggja drög að kröfugerðum sínum fyrir viðræður um endurnýjun kjarasamninga sem losna almennt um áramótin. Aðalsteinn segir að félögin sem andæfa forystu Gylfa vilji koma sínum áherslum á framfæri frekar en að fella sig við að forsetinn hitti stjórnvöld með sinn boðskap.

Þing ASÍ verður haldið í október þar sem meðal annars verður kosið til embættis forseta sambandsins. Aðalsteinn segir að félögin vilji að skipt verði um forystu sambandsins.

„Menn vilja skipta um skipstjórann í brúnni og ná samstöðu um að kalla inn nýtt og kraftmeira fólk að störfum fyrir hreyfinguna,“ segir Aðalsteinn.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vildi ekki tjá sig um vantrauststillögu stjórnar Framsýnar við Vísi nú undir kvöld.


Tengdar fréttir

Stjórn VR treystir ekki forseta ASÍ

Stjórn VR ber ekki traust til Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, til að leiða viðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins fyrir hönd stéttarfélagsins og mun hann ekki tala í umboði þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×