Innlent

Ekið í veg fyrir lögreglumann á bifhjóli í forgangsakstri

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Aðsend
Lögreglumaður á bifhjóli virðist hafa sloppið við alvarleg meiðsli þegar ekið var í veg fyrir hann í forgangsakstri. Lögreglumaðurinn hafði svarað útkalli vegna umferðaróhapps á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar.

Hafnaði bifhjól lögreglumannsins á bíl sem ekið var í veg fyrir hann. Er lögreglumaðurinn sagður hafa kastast yfir bílinn sem ók á bifhjólið en samkvæmt sjónarvottum á vettvangi stóð lögreglumaðurinn upp eftir slysið og beið eftir sjúkraflutningsmönnum.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að svo virðist vera sem að lögreglumaðurinn hafi ekki slasast alvarlega. Það megi að mörgu leyti þakka öryggisbúnaði sem lögreglumenn notast við þegar þeir aka bifhjólum. Var lögreglumaðurinn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu virðist enginn hafa slasast alvarlega í þessum tveimur umferðaróhöppum.

Einhverjar tafir urðu á umferð til austurs vegna óhappsins en vinnu viðbragðsaðila á vettvangi fer senn að ljúka. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×