Innlent

Kjörskrá verður lögð fram í Árneshreppi á morgun

Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Djúpavík tilheyrir Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins.
Djúpavík tilheyrir Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins. visir/stefán
Ástríður Jóhannesdóttir staðgengill forstjóra Þjóðskrár útilokar ekki að athugun stofnunarinnar geti haft áhrif á kjörskrána í Árneshreppi. Rannsókn á fjölda nýrra lögheimilisskráninga í Árnessýsluhreppi stendur enn yfir hjá Þjóðskrá. Ástríður er staðgengill forstjóra Þjóðskrár og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs stofnunarinnar og segir hún í samtali við fréttastofu að Þjóðskrá hafi metið það sem svo að þarna þyrfti að fara fram sérstök athugun á lögheimilisskráningum í hreppnum.

„Þetta er þá mál sem fer í venjubundinn feril hjá stofnuninni,“ segir Ástríður. „Þessi lögheimilismál eru tekin til skoðunar, það er óskað eftir nánari upplýsingum og það fer fram gagnaöflun og rannsókn. Að henni lokinni mun ákvörðun liggja fyrir.“

Athugun enn í gangi

Það er þó ekki á forræði Þjóðskrár að leggja fram endanlega kjörskrá heldur afhendir hún sveitarfélagi svokallaðan kjörskrárstofn og það sé sveitarfélagsins að leggja fram kjörskrána. Ástríður segir að úrskurður Þjóðskrár í máli af þessum toga geti þó hugsanlega haft áhrif á kjörskrána.

„Það eru ákveðnar leiðréttingarheimildir í lögum um kosningar til sveitastjórna. Vissulega er það svo að breytingar á lögheimilaskráningu fólks og breytingar sem verða á þessu tímabili geta haft áhrif á endanlega kjörskrá. En það er þó ekki Þjóðskrár að taka ákvörðun um það.“

Athugun er enn í gangi en Ástríður vonast til að Þjóðskrá geti skilað af sér eins fljótt og auðið er.

„Þessi mál eru í skoðun sem stendur, gagnaöflun og almenn málsmeðferð. Það er stefnt að því að ljúka því eins fljótt og auðið er þegar fullnægjandi rannsókn hefur farið fram. Hvenær það verður nákvæmlega get ég ekki sagt til um á þessari stundu.“

Í dag fór fram fundur í hreppnum þar sem skoðað var lögfræðilegt álit á málinu og staðan rædd. Kjörskrá verður lögð fram á morgun og kemur ekki í ljós fyrr en þá hvernig hún mun líta út. Málið ætti að skýrast á morgun. Eva Sigurbjörnsdóttir sveitarstjóri í Árneshreppi sagði í sambandi við fréttastofu eftir fundinn að hún ætli  ekki að tjá sig frekar um málið fyrr en niðurstaða Þjóðskrár liggur fyrir.


Tengdar fréttir

Birtir lista yfir þá sem fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og Vestfirðingur, birtir á heimasíðu sinni í kvöld lista yfir fólk sem hann segir að hafi flutt lögheimili sitt í Árneshrepp á Ströndum dagana fyrir 5. maí síðastliðinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.