Innlent

Kjartan Bjarni stýrir óháðri úttekt á barnaverndarmálum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kjartan Bjarni Björgvinsson á blaðamannafundi þar sem skýrslan um einkavæðingu Búnaðarbankans var kynnt á sínum tíma.
Kjartan Bjarni Björgvinsson á blaðamannafundi þar sem skýrslan um einkavæðingu Búnaðarbankans var kynnt á sínum tíma. vísir/vilhelm
Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, mun stýra óháðri úttekt á málum á sviði barnaverndar hér á landi. Ásamt Kjartani mun Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild háskóla Íslands annast verkefnið.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að úttektin sé gerð að tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ásmundur Einar Daðason, félags - og jafnréttismálaráðherra, hafði óskað eftir því að farði yrði í úttektina.

Í henni verður farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, það er að segja þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast málunum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis. Niðurstaða úttektarinnar mun liggja fyrir í byrjun júní og stendur til að birta hana opinberlega.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að hann myndi fagna manna mest óháðri úttekt á störfum hans, sem nú er ljóst að verður niðurstaðan.

Kjartan Bjarni hefur reynslu af óháðum úttektum. Þeir Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, skipuðu Rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem falið var að skoða einkavæðingu Búnaðarbankans á sínum tíma.


Tengdar fréttir

„Ekkert tilefni til að vantreysta mér“

Bragi Guðbrandsson segist eiga fullt erindi til starfa sem fulltrúi Íslands hjá Barnaréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Hann njóti mikils trausts á erlendum vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×