Lífið

„Líður eins og ég sé á leiðinni á Óskarinn“

Stefán Árni Pálsson í Lissabon skrifar
„Mér líður ótrúlega vel á þessum bláa dregli. Þetta er auðvitað bara klikkað, mér líður eins og ég sé á leiðinni á Óskarinn ,“ segir Ari Ólafsson sem kemur fram á fyrra undanúrslitakvöldinu í Eurovision í Lissabon á þriðjudagskvöldið en hann gekk bláa dregilinn við MAAT listasafnið í borginni í dag.

Þar heillaði hann mörg hundruð blaðamenn og fann sig augljóslega vel í sviðsljósinu.

„Allir að kalla á mig og biðja um viðtal og svona, þetta er skrýtið en ógeðslega gaman og maður nýtur sín vel hér.“

Ari segir að allt Eurovision-ferlið sé stærsta ævintýri lífsins.

„Maður getur ekki annað gert en að elska hverja einustu stund. Ég er mjög spenntur fyrir morgundeginum, þegar ég kem fram á dómararennslinu og það telur 50 prósent. Svo er það bara þriðjudagurinn og þá ætla ég að negla þetta.“

Mikið álag

Þórunn Erna Clausen naut sín vel á bláa dreglinum í dag og er hún spennt fyrir vikunni.

„Veðrið og allt umhverfið er æðislegt. Hér líður öllum mjög vel og við skelltum okkur til að mynda á ströndina í gær.“

Þórunn er lagahöfundur lagsins, syngur í bakröddum og leikstýrir því einnig. Hún segir að það sé töluvert álag á sér.

„Smá, pinkupons,“ segir Þórunn og hlær.

„Þetta er samt ekki neitt sem við ráðum ekki við. Mér líður best þegar það er rosalega mikið að gera, þannig að það er bara frábært. Ari er eiginlega eins, við erum bæði alveg sjúklega ofvirk.“

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×