Innlent

Kanna grundvöll fyrir karlaframboði í vor

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Telur Gunnar að nauðsynlegt sé að stofna til framboðs til að stemma stigu við árás stjórnmálamanna gegn feðrum.
Telur Gunnar að nauðsynlegt sé að stofna til framboðs til að stemma stigu við árás stjórnmálamanna gegn feðrum. Vísir/GVA
Hópur einstaklinga innan Facebook-hópsins #daddytoo kannar nú grundvöll fyrir karlaframboði til borgarstjórnarkosninganna í vor. Þetta kemur fram í innleggi sem Gunnar Kristinn Þórðarson, formaður samtaka umgengnisforeldra, skrifar.

„Hópur feðra hefur ákveðið að kanna grundvöll fyrir karlaframboði til borgarstjórnarkosninga í vor. Okkur er ljóst að engum stjórnmálaflokki er treystandi fyrir málefnum feðra á hinu pólitíska litrófi og má segja að þátttaka stjórnmálamanna í femínistaskjölunum svokölluðu hafi valdið straumhvörfum í baráttunni fyrir foreldrajafnvægi,“ skrifar Gunnar.

Segir varaformann Samfylkingarinnar taka þátt í skipulagðri aðför gegn feðrum

Þá segir hann að Heiða Björg Hilmisdóttir hafi tekið þátt í skipulagðri aðför gegn feðrum. „Í lokuðum hóp á Facebook tók varaformaður Samfylkingarinnar og frambjóðandi í borgarstjórnarkosningunum þátt í skipulagðri aðför gegn feðrum sem tálmuð er umgengni og feðrahreyfingum,“ skrifar hann.

Telur Gunnar að nauðsynlegt sé að stofna til framboðs til að stemma stigu við árás stjórnmálamanna gegn feðrum, feðrahreyfingum og baráttunni fyrir foreldrajafnrétti.

„Nýtt stjórnmálaafl myndi einblína á réttindi feðra, barna þeirra og drengja í skólakerfinu. Nauðsynlegt er að komast á móts við drengi í grunnskólum þar sem þeir eiga undir högg að sækja. Einnig er nauðsynlegt að gera barnavernd faglegri með sérstakri áherslu á að stemma stigu við umgengnistálmunum og bæta réttaröryggi málsaðila.“

Félagsþjónusta Reykjavíkurborgar mæti fátækum feðrum sérstaklega

Þá talar hann fyrir því að félagsþjónusta Reykjavíkurborgar mæti fátækum feðrum sérstaklega með tilliti til framfærslu barna þeirra í gegnum umgengni. „Einnig er mikilvægt að Reykjavíkurborg þrýsti á bætta innheimtuhætti hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga þannig að aukið tillit verði tekið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna meðlagsgreiðenda.

Þá hyggst hugsanlegt framboð einnig þrýsta á að innheimtur meðlaga færist alfarið til ríkisins þar sem meðlögin eru greidd út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×