Innlent

Ljósmóðir efast um að spítalinn komi til með að þola álagið

Grétar Þór Sigurðsson skrifar
Að meðaltali fæða níu konur á dag á Landspítalanum.
Að meðaltali fæða níu konur á dag á Landspítalanum. Vísir/Getty
Heilbrigðisráðherra hefur falið Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum að sinna þjónustu við sængurkonur og börn sem hefur verið í höndum ljósmæðra sem sinna heimaþjónustu. Ljósmæðurnar, sem hafa lagt niður störf, krefjast þess að samningar við Sjúkratryggingar Íslands verði undirritaðir.

Anna Sigrún Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landspítalans, vildi lítið tjá sig umfram efni tilkynningarinnar þegar eftir því var leitað. Hún sagði þó að það gæfi augaleið að álag á sængurlegudeildinni myndi aukast vegna vinnustöðvunarinnar og að mikilvægt væri að leysa úr deilunni.

Ellen Bára Valgerðardóttir, ljósmóðir á Landspítalanum og sjálfstætt starfandi ljósmóðir í heimaþjónustu, furðar sig á seinagangi ráðherrans. Ljóst hafi verið að samningur ljósmæðra við Sjúkratryggingar Íslands myndi renna út 31. janúar síðastliðinn.

Ellen segir að rétt fyrir páska hafi verið tilbúin drög að samningi sem gerðu ráð fyrir 13,8 prósenta hækkun á verktakagreiðslum ljósmæðranna, en í dag nema þær 4.394 krónum á tímann. Hún bendir á að hækkunin nemi alls 30 milljónum króna yfir árið sem í þessu samhengi væru ekki miklir fjármunir. Þá spari heimaþjónustan ríkinu heilmikinn kostnað og dragi auk þess úr álagi á meðgöngu- og sængurlegudeild LSH.

„Við sjáum ekki hvernig heilsugæslustöðvarnar eiga að geta sinnt öllum,“ segir Ellen.

„Á Landspítalanum eru að ég held tuttugu rúm á meðgöngu- og sængurlegudeild. Þar liggja konur sem þurfa náið eftirlit sem og sængurkonur eftir fæðingu. Það fæða að meðaltali níu konur á dag á Landspítala,“ bætir hún við að lokum, efins um að Landspítalinn muni þola álagið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×