Innlent

Breyta sjoppunni við Sunnutorg í veitinga- og kaffihús

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Páll Ólafsson í bókinni Englar alheimsins eyddi talsverðum tíma í sjoppunni í Laugardalnum.
Páll Ólafsson í bókinni Englar alheimsins eyddi talsverðum tíma í sjoppunni í Laugardalnum. Vísir/Anton
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær leigusamning um verslunarhúsnæði í Sunnutorgi. Reykjavíkurborg hafði óskað eftir hugmyndum að starfsemi í Sunnutorgi að Langholtsvegi 70 þann 16. september í fyrra.

Húsið hafði mikið látið á sjá síðustu ár en við val á starfsemi var miðað við að húsið myndi gæða hverfið meira lífi og fjölbreytni. Um er að ræða 57 fermetra verslunarhúsnæði byggt árið 1959 af Sigvalda Thordarson. Húsið er eitt helsta kennileiti hverfisins.

Ragnar Kjartansson kemur til með að hanna staðinn.Reykjavíkurborg
Skreyta húsið með textabrotum um Sunnutorg í Englum alheimsins

Hugmynd Helga S. Helgasonar, tónlistar- og veitingamanns, varð hlutskörpust en þar er gert ráð fyrir að opna síðar á árinu veitinga-  og kaffihús. Húsið verður lagfært og upprunalegt útlit verndað.

Ragnar Kjartansson, borgarlistamaður Reykjavíkur, mun hanna staðinn. Meðal hugmynda eru að skreyta húsið að innan með gömlum ljósmyndum og teikningum af byggingum Sigvalda í hverfinu og textabrotum um Sunnutorg í Englum alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson en Páll Ólafsson, aðalsögupersóna bókarinnar, eyddi talsverðum tíma í sjoppunni. Ragnar hyggst skapa einhvers konar tímavél til uppruna Sunnutorgs.

Sviðinu er ætlað að gæða hverfið lífi borgarbúum að kostnaðarlausu.Reykjavíkurborg
Setja svið á torgið fyrir menningartengda viðburði

Veitingahúsið verður menningarhús sem býður upp á upplifun fyrir alla. Hugmyndin er að húsið tengist torginu sjálfu með því að setja þar lítið svið fyrir tónlist og aðra menningartengda viðburði yfir sumartímann.

Þá verður boðið upp á öðruvísi matseðil með jamaískt þema. Til að mynda er stefnt að því að bjóða upp á grillaðan Jamaica kjúkling, afrískan kjúkling, jamaískt hátíðar brauð og suðræn kryddhrísgrjón.

Húsið er eitt helsta kennileiti hverfisins.Reykjavíkurborg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×