Innlent

Ísbirnir herja á grænlenskt þorp

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Hvítabirnir hafa herjað á afskekktasta þorp Grænlands síðustu mánuði en um páskanna hafa tveir birnir verið felldir í og við þorpið. Liðsmenn Hróksins sem þar halda skákhátíð hafa líkt og aðrir íbúar verið beðnir að varann á sér. Ísbjörn réðst á mann í nágrenni þorpsins fyrir skömmu.

Skákfélagið Hrókurinn heldur skákhátíð tólfta árið í röð á Ittoqqortoormiit sem er afskekktasta þorp Grænlands með um 450 íbúa. Máni Hrafnsson liðsmaður Hrókssins sem staddur er í þorpinu segir að undanfarna mánuði hafi um 30 hvítabirnir herjað á þorpið.

„Það var einn ísbjörn felldur í fyrradag og hann var á vappi svona kílómeter frá bænum. Svo var annar sem var felldur í gærkvöldi inní bænum.“

Máni segir að fólkið í þorpinu munir varla eftir öðru eins og hafi fengið ströng fyrirmæli um að fara ekki út fyrir bæjarmörkin án þess að bera vopn. Þá hafi ísbjörn ráðist á mann fyrir skömmu.

„Fyrir tveimur vikum var maður að koma út frá sér og ætlaði að fara á vélsleða þegar ísbjörn kom og réðst á hann. Björninn náði að bíta í höndina á honum áður en honum tókst að berja hann af sér og brunaði í burtu á vélsleðanum.“  

Ísbjarnakjötið ekki í uppáhaldi

Máni segir að kjötið af öðrum ísbirninum hafi verið deilt út meðal þorpsbúa.

„Það var ungur veiðimaður, Karl Napatoq sem felldi ísbjörninn og björninn var dreginn í bæinn þar sem hann var fláður og kjötinu skipt milli þorpsbúa. Síðan var það eldað næsta dag. Við fengum að smakka og þetta var seigt og ekki í uppáhaldi verð ég að segja.“


Ísbjörninn kíkti inn

Liðsmenn Hrókssins  fóru með leiðsögumanni í annað þorp í morgun og þar voru fótspor eftir stóran ísbjörn.

„Hann hafði greinilega kíkt inn um glugga á húsum þar en sem betur fer var enginn heima.“ Máni segir að þorpið hafi kvóta upp á 35 ísbirni á ári en nú þegar sé búið að fella 30.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.