Erlent

68 létust í eldsvoða á lögreglustöð

Sylvía Hall skrifar
Ástvinir söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina í von um upplýsingar.
Ástvinir söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina í von um upplýsingar. Vísir/Getty
68 létust í eldsvoða á lögreglustöð í borginni Valencia í Venesúela á miðvikudag eftir að fangar gerðu tilraun til flótta.

Fangarnir lögðu eld að dýnum sínum eftir að lögreglumaður var skotinn í fótinn og dreifðist eldurinn hratt um stöðina. Stærstur hluti hinna látnu voru fangar, en einnig létust tvær konur sem höfðu verið að heimsækja ástvini.

Erfiðlega gekk að slökkva eldinn og þurftu slökkviliðsmenn að brjóta niður veggi stöðvarinnar til að hjálpa fólki út. 

Hópur fólks safnaðist saman fyrir utan lögreglustöðina í gær til þess að krefjast upplýsinga um afdrif ættingja og ástvina og varð öngþveitið svo mikið að lögregla þurfti að beita táragasi. Ættingjar segjast engar upplýsingar hafa fengið í kjölfar eldsvoðans.

Fangelsisaðstæður í landinu hafa verið mikið áhyggjuefni, en mörg þeirra eru yfirfull og fangauppreisnir algengar. Ríkisstjóri Carabobo-fylkis segir að málið verði rannsakað til hins ítrasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×