Erlent

Tuttugu tölvuþrjótar handteknir eftir umfangsmikla rannsókn Europol

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Níu einstaklingar frá Rúmeníu eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins og ellefu frá Ítalíu.
Níu einstaklingar frá Rúmeníu eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins og ellefu frá Ítalíu. Vísir/Getty
Tuttugu tölvuþrjótar voru handteknir í gær eftir umfangsmikla rannsókn Europol en þeir sviku um eina milljón evra, sem nemur um 121 milljón íslenskra króna, út úr einstaklingum á Ítalíu og í Rúmeníu. Fölsk fyrirmæli bárust fólki í gegnum tölvupóst sem leit út fyrir að vera frá skattayfirvöldum. 

Handtökurnar eru lokahnykkurinn á aðgerðum Europol, rúmenskra lögregluyfirvalda, ítalskra lögregluyfirvalda, J-Cat og Eurojust sem hafa staðið yfir í um tvö ár. Níu einstaklingar frá Rúmeníu eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins og ellefu frá Ítalíu. Fjöldi húsleita hefur verið gerður og lagt hefur verið hald á tölvur þrjótanna.

Hópurinn notaði svokallaða „spear phishing“ aðferð til að svíkja pening út úr fórnarlömbum sínum. Í slíkum svindlum fá einstaklingar sendan tölvupóst frá fyrirtæki eða stofnun sem þau eiga að geta treyst sem inniheldur vefslóð á síðu þar sem fórnarlambið þarf að láta í té bankaupplýsingar.

Hópurinn er einnig sakaður um skipulagða glæpastarfsemi, peningaþvætti, mansal og eiturlyfjastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×