Innlent

Óljós framtíð hjá Bjartri framtíð

Höskuldur Kári Schram skrifar
Prófessor í stjórnmálafræði segir að ákvörðun Bjartrar framtíðar um að bjóða ekki fram lista í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum komi ekki á óvart. Hann segir ólíklegt að flokkurinn nái aftur fyrri styrk á landsvísu og margt bendi til þess að hann sé við það að lognast út af.

Björt framtíð var stofnuð árið 2012 og fékk sex þingmenn í alþingiskosningum ári síðar. Flokkurinn hefur einnig verið áberandi í sveitarstjórnarmálum og er meðal annars í meirihlutasamstarfi í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Flokkurinn fékk hins vegar skell í síðustu alþingiskosningum og datt út af þingi.

Flokkurinn hefur nú ákveðið að bjóða ekki fram lista í komandi borgarstjórnarkosningum en Björt Ólafsdóttir formaður Bjartrar framtíðar staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í dag.

S. Björn Blöndal fráfarandi oddviti flokksins í Reykjavík útilokar ekki flokkurinn bjóði fram í þarnæstu kosningum.

„Við erum ekki að leggja flokkinn niður við höfum bara ákveðið að bjóða ekki fram í Reykjavík í næstu kosningum. Það má alveg túlka það sem uppgjöf ef að aðalmarkmiðið er að viðhalda sjálfum sér og viðhalda einhverju flokkakerfi. Við höfum hugsað þetta þannig að við séum vettvangur fyrir fólk sem að langar mjög mikið og er tilbúið að gefa mikið af sér. Það var ekki til staðar núna. Sjö af átta efstu sem voru í framboði árið 2014 gefa ekki kost á sér og þar er blóðtaka,“ segir Björn.

Björt framtíð verður þó með framboð í öðrum sveitarfélögum en Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir að þessi ákvörðun í Reykjavík komi ekki á óvart.

„Það er mjög ólíklegt að þessi flokkur eigi eftir að ná fyrri stöðu á landsvísu. Afhroðið í seinustu þingkosningum var þess háttar að flokkur af þessari tegund á vart endurkomu auðið allavega ef sagan segir eitthvað til um framhaldið,“ segir Eiríkur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×