Innlent

„Krakkar sem ég þekki vilja taka samræmdu prófin“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Nemendum í níunda bekk gefst kostur á að þreyta að nýju könnunarpróf í ensku og íslensku sem fresta þurfti í síðustu viku en niðurstöður prófanna verða ekki notaðar við mat á umsóknum um framhaldsskólavist. Menntamálaráðherra fundaði í morgun með helstu hagsmunaaðilum þar sem komist var að niðurstöðu um hvernig bregðast skyldi við. Fulltrúar nemenda sem sátu fundinn segja það sína upplifun að nemendur vilji almennt þreyta prófin.

Þátttaka í könnunarprófunum verður valkvæð samkvæmt ákvörðun ráðherra en þeir nemendur sem luku prófunum í liðinni viku fá afhentar niðurstöður úr þeim. Þá verður vinnuhópi falið að gera tillögu að framtíðarstefnu um samræmd könnunarpróf.

„Við erum ekki kannski endilega alltaf alveg sammála um hvaða ákvörðun eða hvaða nálgun sé best. En hins vegar þegar við erum að taka ákvörðun þá þarf að gæta meðalhófs, þá þarf að gæta jafnræðis,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra í samtali við Stöð 2 að fundi loknum í morgun.

Fulltrúar ungmennaráðs umboðsmanns barna voru meðal þeirra sem sátu fund ráðherra. „Alla vega krakkar sem ég þekki þau vilja taka samræmdu prófin, þau vilja vita hvar þau standa á landinu,“ segir Rakel Sól Pétursdóttir, nemandi í 10. bekk.

„Ég held algjörlega að þeir sem að vilja taka prófið aftur eiga að fá að taka prófið aftur og fá niðurstöðu sína þannig,“ segir stalla hennar, Auður Bjarnadóttir, en hún segir það hafa verið nemendum mikið áfall hversu illa til tókst í síðustu viku. Þær setja einnig spurningamerki við það hvort prófin eigi að vera rafræn.

„Mín skoðin er náttúrlega að þau ættu ekki að vera haldin á tölvu rafrænt þar sem það getur verið erfitt að lesa í lesskylningi og reikna stærðfræðina,“ segir Auður. Öllum mun bjóðast að þreyta sambærileg könnunarpróf að nýju en þeir nemendur sem kjósa að taka ekki umrædd próf aftur verða leystir undan prófskyldu. Þá munu stjórnendur í hverjum skóla ákveða hvort þeir leggja prófin fyrir nemendur sína í vor eða haust.

Menntamálastofnun hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir hvernig staðið var að framkvæmdinni en það er bandarískt fyrirtæki sem þjónustar prófakerfið sem brást í síðustu viku.

„Við höfum þegar sett af stað tæknihóp sem er núna að skoða hvað fór úrskeiðis við þessa fyrirlögn, tæknilega skoða gagnagrunninn, eins alla ferla hjá okkur, gerðum við einhver mistök í samskiptum við þetta fyrirtæki og í öðrum undirbúningi?“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. 


Tengdar fréttir

Vilja skoða hvort leggja eigi niður samræmd próf

Meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hefur lagt fram tillögu um að fyrirkomulag samræmdra prófa verði tekið til endurskoðunar og komið verði af stað vinnu við endurmat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×