Rússar hafa lýst því yfir að þeir hyggist vísa 23 breskum erindrekum úr landi. Um er að ræða svar Rússlands við brottvísun 23 rússneskra erindreka úr Bretlandi í kjölfar taugaeitursárásarinnar gegn rússneskum njósnara og dóttur hans í Bretlandi. Bretar saka Rússa um að standa að baki árásinni.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tjáði blaðamönnum þar í landi í fyrradag að breskum erindrekum yrði „pottþétt“ vísað úr landi og það myndi gerast brátt.
Í yfirlýsingu frá rússneska utanríkisráðuneytinu segir að bresku erindrekunum verði vísað úr landi innan viku. Þá hafa erindrekarnir verið lýstir yfir sem óvelkomnir í Rússlandi (e. persona non grata). Í yfirlýsingunni segir einnig að breska ráðgjafarnefndin í Rússlandi verði lögð niður, auk þess sem leyfi til opnunar á ræðismannsskrifstofu Breta í Sankti Pétursborg verði afturkallað.
Sergei Skripal, rússneskur fyrrverandi njósnari, og dóttur hans Yuliu Skripal var byrlað taugaeitur þann 4. mars síðastliðinn. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk í Salisbury í Wiltshire í suðurhluta Englands og liggja nú þungt haldin á sjúkrahúsi.

