Innlent

Rekstrarkostnaður við bíl Ásmundar rúmlega tvær milljónir króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk hæstu greiðsluna vegna aksturskostnaðar af þingmönnum í fyrra.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk hæstu greiðsluna vegna aksturskostnaðar af þingmönnum í fyrra. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) fyrir Morgunútvarpið á Rás 2 kostar það Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, rúmlega tvær milljónir króna á ári að reka Kia Sportage-bíl sinn miðað við notkun hans í fyrra. Það er um 2,6 milljónum króna minna en Ásmundur fékk í aksturskostnað frá Alþingi árið 2017 en greiðsla til hans vegna þess nam 4,6 milljónum króna.Sjá einnig:
Fjöldi þingmanna fer ekki að reglum

Var Ásmundur sá þingmaður sem fékk mest greitt í aksturskostnað frá Alþingi á liðnu ári en samkvæmt svari forseta þingsins við fyrirspurn Björns Levís Gunnarsson, þingmanns Pírata, ók Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra og fékk endurgreitt í samræmi við það. Reglur forsætisnefndar gera ráð fyrir að þingmenn sem aka umfram 15 þúsund kílómetra á ári vegna vinnu sinnar skuli færa sig yfir á bílaleigubíl sem Alþingi leggur til.

Samkvæmt útreikningum FÍB er rekstrarkostnaður við bíl Ásmundar, með fjármagnskostnaði, 2,07 milljónir á ári. Um er að ræða Kia Sportage-jeppling sem er fjórhjóladrifinn og gengur fyrir dísilolíu. Ef um væri að ræða nýjan bíl væri rekstrarkostnaðurinn 2,44 milljónir króna á ári.

Reikningsdæmi FÍB fyrir Morgunútvarpið lítur svona út en nánar má lesa um forsendur þess á vef RÚV:

653.676 kr – Dísilolía

270.000 kr – Viðhald og viðgerðir

90.000 kr   – Hjólbarðar

160.000 kr – Tryggingar

26.000 kr   – Skattar og skoðun

13.000 kr   – Bílastæðakostnaður

36.000 kr   – Þrif og fleira

684.000 kr – Verðrýrnun

138.700 kr – Fjármagnskostnaður

Samtals: 2.071.376 krónur


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.