Innlent

Vísbendingar um að unga fólkið búi lengur hjá mömmu og pabba

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greiningardeild Arion banka segir að íbúðum hafi fjölgað um 1.700 á síðasta ári. Að mati deildarinnar vantar 9.000 íbúðir til ársins 2020 til að framboð haldi í við fólksfjölgun. Ólíklegt sé að markmiðið náist.
Greiningardeild Arion banka segir að íbúðum hafi fjölgað um 1.700 á síðasta ári. Að mati deildarinnar vantar 9.000 íbúðir til ársins 2020 til að framboð haldi í við fólksfjölgun. Ólíklegt sé að markmiðið náist. vísir/gva
Árið 2015 bjuggu 57 prósent einstaklinga á aldrinum 20-24 ára í foreldrahúsum. Hlutfallið hefur hækkað umtalsvert síðustu ár en árið 2004 bjuggu rétt um 50 prósent einstaklinga á þessum aldri hjá foreldrum sínum.

Greiningardeild Arion banka segir í nýrri skýrslu um húsnæðismarkaðinn, sem kynnt var í gær, að tölurnar frá 2015 séu nýjustu tiltæku upplýsingarnar en færa megi rök fyrir því að fjölgað hafi í þessum hóp síðustu tvö ár þar sem húsnæðisverð hefur hækkað skarpt. Á móti kemur að hlutfall fyrstu kaupa hefur farið hækkandi.

„Við teljum líklegt að aldur fyrstu kaupenda hafi hækkað og því hafi fjölgun fyrstu kaupa frekar áhrif á eldra aldursbilið, það er að segja 25-29 ára. Eftirspurn á húsnæðismarkaði frá einstaklingum undir 22 ára er því að einhverju leyti tempruð,“ segir í skýrslunni.

Greiningardeildin segir að húsnæðisverð hafi hækkað verulega umfram undirliggjandi þætti í öllum hverfum Reykjavíkur á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að húsnæðisverð hækki enn. Hækkunin verði um 6,6 prósent í ár, svo verði hún 4,1 prósent á næsta ári og 2,3 prósent árið 2020. Greiningardeildin bendir á að útlit sé fyrir að undir lok spátímans muni raunverð húsnæðis lækka á milli ára. Það yrði í fyrsta sinn frá árinu 2010 sem raunverð húsnæðis lækkar.

Greiningardeildin segir að íbúðum á landinu öllu hafi fjölgað um 1.700 á síðasta ári. Byggja þurfi hátt í níu þúsund íbúðir á landinu fram til ársloka 2020 til að framboð haldi í við fólksfjölgun. Í nýrri greiningu Íbúða­lánasjóðs segir reyndar að íbúðum þurfi að fjölga um 17.000 til ársins 2020. Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá Greiningardeildinni, segir að útskýra megi muninn með því að í tölum þeirra sé ekki tekið tillit til þarfarinnar sem þegar hefur safnast upp.

Í skýrslunni segir að einstaklingum 22 ára og eldri hafi fjölgað um rúmlega 8.000 árið 2017. Útlit sé fyrir að fólksfjölgun verði nokkuð hröð á næstu árum. Hversu hröð hún verði muni ráðast að miklu leyti af innflutningi vinnuafls, sem aftur ræðst af efnahagsástandinu. Hröð fólksfjölgun kunni að leiða til tímabundinnar umframeftirspurnar á húsnæðismarkaði sem aftur muni þrýsta verðinu upp.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×