Innlent

Lífslíkur Íslendinga á meðal þeirra hæstu á Norðurlöndum

Atli Ísleifsson skrifar
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengustu dánarorsakir eldra fólks á Norðurlöndunum.
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengustu dánarorsakir eldra fólks á Norðurlöndunum. Vísir/stefán
Lífslíkur Íslendinga eru meðal þeirra hæstu í Norðurlöndunum og skora íslenskar konur hæst á kvarðanum, en finnskar og sænskar konur koma rétt á hæla þeirra. Lífslíkur Norðurlandabúa eru almennt háar eða 80,9 ár að meðaltali.

Þetta kemur fram í nýju riti Norrænu nefndarinnar um heilbrigðisskýrslur og er fjallað um ritið í Talnabrunni landlæknis.

Í ritinu er einnig fjallað um að hlutfall eldra fólks af heildarmannfjölda fari hækkandi á öllum Norðurlöndum. Hlutfallið er nú hæst á Álandseyjum og í Finnlandi, um tuttugu prósent, en lægst á Grænlandi, eða tæp átta prósent.

Hópur 65 ára og eldri er nú fjórtán prósent af mannfjölda á Íslandi en spáð er að hann verði kominn yfir tuttugu prósent af heildarmannfjölda árið 2040.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengustu dánarorsakir eldra fólks á Norðurlöndunum. Í skýrslunni var sérstaklega litið til byltna og falla en slík óhöpp eru ein algengasta orsök alvarlegra meðsla hjá eldra fólki, til dæmis mjaðmabrota.

Nánar má lesa um málið í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×