Erlent

Sex lík hafa fundist í blómakerjum í Toronto

Samúel Karl Ólason skrifar
Bruce McArthur starfaði sem landslagsarkitekt.
Bruce McArthur starfaði sem landslagsarkitekt. Facebook
Lögreglan í Toronto í Kanada hefur fundið leifar sex manna í blómakerjum á landareign þar sem Bruce McArthur hafði afnot af. Hann starfaði sem landslagsarkitekt. Áður hafði lögreglan tilkynnt fund þriggja líka en nú stendur yfir umfangsmikil leit að fleiri fórnarlömbum. McArthur hefur verið ákærður fyrir fimm morð og búist er við því að ákærunum muni fjölga.

Aðeins er búið að bera kennsl á leifar eins af fórnarlömbunum sex. Það er Andrew Kinsman sem hvarf í júní í fyrra.

Með því að notast við radar og hunda hafa rannsakendur borið kennsl á hluta landeignarinnar þar sem jörðin hefur verið röskuð. Tjaldi hefur verið komið þar yfir og verið er að þýða jörðina með stórum hitablásurum, samkvæmt frétt CBC News.



McArthur var handtekinn þann 18. janúar og ákærður fyrir tvö morð. Einhver af fórnarlömbum hans voru reglulegir gestir í skemmtanalífi samkynhneigðra í Toronto. Samfélag hinsegin fólks hafði á síðustu mánuðum vakið athygli á að fjöldi manna sem sóttu hverfið hafi horfið sporlaust.

Samkvæmt frétt NBC News er talið að hinn 66 ára gamli McArthur hafi keyrt um Toronto á sendiferðabíl sínum og fundið fórnarlömb sín með þeim hætti og á stefnumótamiðlum samkynhneigðra.

Á einum slíkum miðli hafði hann skrifað: „Ég get verið svolítið feiminn þar til ég kynnist þér en inn við hjartað er ég rómantískur.“

Blaðamannafundur sem haldinn var í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×