Innlent

Yfirvöld neita að afhenda Sunnu vegabréfið

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sunna Elvíra ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Malaga.
Sunna Elvíra ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Malaga. Mynd/Unnur Birgisdóttir
Lögregluyfirvöld á Spáni neita að afhenda vegabréf Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem legið hefur alvarlega slösuð á spítala í Malaga í tvær vikur. „Ég er fyrst og fremst að annast hagsmuni Sunnu og hennar fjölskyldu, og að vinna í því að koma henni aftur heim,“ segir Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu.

Páll segir Sunnu ekki með réttarstöðu sakbornings hér heima, en eins og Fréttablaðið greindi frá var eiginmaður hennar handtekinn við komu hingað til lands frá Malaga fyrir helgi. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að innflutningi á fíkniefnum frá Spáni.

Fjórir menn hafa nú stöðu grunaðra í því máli en það varðar innflutning á amfetamíni sem smyglað var með DHL-sendingu frá Spáni í pakka sem merktur var Skáksambandi Íslands. Þrír sitja í gæsluvarðhaldi vegna þessa máls en fjórða manninum var sleppt úr haldi í síðustu viku.

Páll segir erfiðlega hafa gengið að fá svör frá spænskum yfirvöldum um ástæður þess að lagt hefur verið hald á vegabréf Sunnu. Aðspurður segist hann hafa gert kröfu um að vegabréf hennar verði afhent og hefur hann verið í samskiptum við ríkislögreglustjóra vegna málsins. Þá hefur utanríkisþjónustan verið fjölskyldu Sunnu innan handar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×