Innlent

Skipan dómara í Landsrétt hratt af stað dómínóáhrifum

Baldur Guðmundsson skrifar
Unnið er að skipun nýs dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Unnið er að skipun nýs dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. vísir/gva
Skipan dómara í Landsrétt varð til þess að fimm héraðsdómarar fóru þess á leit að vera fluttir til í starfi, en eftir þrjú ár í starfi geta dómarar óskað eftir flutningi. Fimm af þessum sex dómurum færðu sig um set nú í upphafi ársins en einn síðastliðið haust.

Þorsteinn Davíðsson hefur fært sig frá Héraðsdómi Norðurlands eystra til Héraðsdóms Reykjaness en hann hefur verið dómari á Norðausturlandi í tíu ár, frá því 1. janúar 2008. Halldór Björnsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 2008, hóf störf við Héraðsdóm Norðurlands eystra um áramótin.

Hildur Briem, fyrrverandi dómstjóri Héraðsdóms Austurlands, óskaði eftir flutningi til Héraðsdóms Reykjavíkur en hún var skipuð dómari fyrir austan haustið 2010.

Ingimundur Einarsson, fyrrverandi dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sem þar hefur verið dómari frá desember 2006, færði sig til Héraðsdóms Reykjaness, líkt og Þorsteinn. Þá hefur Ólafur Ólafsson, fyrrverandi dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands eystra hafið störf við Héraðsdóm Austurlands, en hann var skipaður dómari fyrir norðan árið 1992.

Þessum fimm dómurum til viðbótar færði Sigríður Elsa Kjartansdóttir, dómstjóri Héraðsdóms Vestfjarða, sem skipuð var dómari í september 2013, sig í Héraðsdóm Reykjavíkur þegar Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari varð forseti Landsréttar síðastliðið haust.

„Héraðsdómarar eiga rétt á að skipta um starfsvettvang, eftir þrjú ár í starfi,“ segir Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar. Það gerist þegar dómari hættir sökum aldurs eða hverfur frá störfum. Ólöf segir að þá skapist svokallaður flutningsréttur, en boð um slíkt sé sent á alla dómara. „Þetta er til að auka hreyfanleika í kerfinu sem er mjög mikilvægt,“ útskýrir Ólöf.

Þórður S. Gunnarsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 2012, lætur af störfum vegna aldurs á næstu dögum, en hann verður sjötugur á þriðjudag. Ólöf segir að hæfnisnefndin sé að ljúka þeirri vinnu að skipa í lausa stöðu við réttinn. Sá dómari mun, þrátt fyrir þessar tilfærslur, taka sæti í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ólöf segir það fordæmalaust að svo margar stöður séu lausar á sama tíma. Skipan dómara í Landsrétt skýri það.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.