Innlent

Engin hefðbundin námskrá verður í nýjum lýðháskóla á Flateyri

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Helena Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lýðaháskólans á Flateyri, segir marga koma að stofnun skólans.
Helena Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lýðaháskólans á Flateyri, segir marga koma að stofnun skólans. Félag um stofnun lýðháskóla á Flateyri
„Eftir mikið undirbúningsstarf fólks í sjálfboðavinnu þá erum við komin á þann stað að við eigum möguleika á að fara af stað með skólann í haust,“ segir Helena Jónsdóttir framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri.

Helena segir að í fyrstu verði ein eða tvær námsbrautir með tuttugu til fjörutíu nemendum. „Það var stofnað félag um þetta fyrir ári og Flateyringar sýndu þessu mikinn áhuga. Svo fyrir nokkrum mánuðum fékkst vilyrði fyrir að fá styrk til að ráða framkvæmdastjóra,“ segir Helena. Mikil bjartsýni ríki um verkefnið.

„Við reiknum með að námið verði tvær annir, en höfum ekki útilokað að fólk geti komið í hálft ár. Svo verður þetta keyrt í lotum, það verður engin hefðbundin námskrá. Námsbrautirnar munu snúast um tónlist, kvikmyndagerð og svo umhverfi og náttúruna. Þá ekki bara náttúruna til að leika sér og skoða heldur líka hvernig hægt er að vinna úr auðlindum hennar eins og tíðkast hefur á svæðinu,“ útskýrir Helena.

Á svæðinu er mikil tónlistarsköpun og mikil gróska í kvikmyndagerð og við munum nýta þá krafta sem þar eru,“ segir Helena. Skólinn verði lyftistöng í báðar áttir.

„Fólk kemur vestur, lærir og skemmtir sér og hugsanlega vilja einhverjir setja eitthvað af stað og jafnvel setjast að þarna. Svo geta Vestfirðingar miðlað sinni þekkingu áfram þannig að áhrifin geta verið margþætt,“ segir Helena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×