Niðurstöðurnar sýndu að tæp 77 prósent eru annaðhvort mjög eða frekar jákvæð til dánaraðstoðar. Aðeins voru um fimm prósent frekar eða mjög neikvæð. Þátttakendur voru einnig spurðir hvort þeir vildu eiga kost á því að óska eftir slíkri aðstoð læknis ef kæmi upp sú staða að þeir greindust með ólæknandi sjúkdóm og upplifðu miklar þjáningar. Tæp 93 prósent þátttakenda vilja eiga kost á því, í stað þess að þjást og deyja af völdum sjúkdómsins.
Ekki var um jafn mikinn stuðning að ræða þegar spurt var um aðstoð við sjálfsvíg, en tæp 45 prósent voru mjög eða frekar jákvæð. Sama hvort um var að ræða dánaraðstoð eða aðstoð við sjálfsvíg voru flestir sammála um að slíkt væri siðferðislega rétt ef sjúklingurinn glímir við ólæknandi sjúkdóm, sem erfitt er að meðhöndla og væri líklegur til að draga fólk til dauða. Þátttakendum fannst mikilvægt að sjúklingurinn óskaði sjálfur eftir aðstoðinni og að hann gæti sjálfur innbyrt lyfin.

Lögð var fram þingsályktunartillaga á Alþingi í mars árið 2017 sem verður lögð fram aftur í ár. „Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að gera könnun á því hvernig þessum málum er háttað í löndum í kringum okkur. Annars vegar hvort þetta hafi verið leyft, og ef svo er, hver reynslan hafi verið af því og hins vegar hvort einhver umræða sé um það í þessum löndum. Svo bætti ég við fyrri tillöguna að ráðherra myndi framkvæma skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks. Ég geri ráð fyrir að það verði flutningsmenn úr öllum eða nánast öllum flokkum,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrsti flutningsmaður tillögunnar.