Innlent

Segja mögulegt að enginn sjúkrabíll verði á Raufarhöfn

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Raufarhöfn.
Frá Raufarhöfn. Vísir/Pjetur
Formaður Landssambands Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, hefur áhyggjur af stöðu sjúkraflutninga á Raufarhöfn og fyrirhuguðum breytingum á utanspítalaþjónustu þar. Eini starfandi sjúkraflutningamaður á svæðinu lætur nú af störfum vegna aldurs og segir sambandið að hugmyndir séu uppi um að leggja starfið niður og taka sjúkrabílinn af staðnum.

Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir að um mikið áhyggjuefni sé að ræða. Hann vill sjá sjúkrabíl og launaða sjúkraflutningamenn á svæðinu áfram, sem mikilvæga hlekki utanspítalaþjónustunnar á norðausturhorninu.

„Við lítum svo á að allir landsmenn eigi rétt á sömu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Það er jú bundið í lög um heilbrigðisþjónustu. Minnkandi þjónusta inn á heilbrigðisstofnunum úti á landi kallar á bætta utanspítalaþjónustu,“ segir Stefán í tilkynningu.

Enn fremur segir hann það mikla afturför ef heimamenn fyrir austan þurfi alfarið að treysta á viðbrögð vettvangsliða, þegar slys eða sjúkdóma ber að höndum. Hann vill sjá áfram starfandi sjúkraflutningamanna á Raufarhöfn, sem samhliða starfinu geti byggt upp nauðsynlegan hóp vettvangsliða sér til stuðnings.

Vettvangsliðar séu kærkomin viðbót í utanspítalaþjónustu en komi aldrei í staðinn fyrir sjúkraflutningamenn. Vettvangsliðakerfi hafi reynst vel bæði hérlendis og erlendis sem fyrsti hlekkur í keðju bráðaþjónustu utan spítala og til stuðnings sjúkraflutninga.

Það sem veki áhyggjur séu áform um að skerða ákveðið viðbragð og þjónustustig sem útlit er fyrir að eigi að gera á Raufarhöfn.

Þá segir Stefán að nýjar tölur um útköll vegna slysa á vegum landsins staðfesti enn frekar þörfina fyrir að þekking og þjálfun sé byggð upp og aukin í heimabyggð alls staðar á landinu. Efla verði sjúkraflutninga og þétta verði net vettvangsliða. Vel megi sjá fyrir sér að slökkvilið á landsbyggðinni taki að sér mikilvægt hlutverk vettvangsliða og gæti það aukið öryggi og eflt slökkviliðin um leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×