Innlent

Drógu saman seglin eftir 57 milljóna tap Airwaves

Baldur Guðmundsson skrifar
Frá Airwaves 2017.
Frá Airwaves 2017. vísir/Ernir
„Þetta er þungur rekstur. Þetta er ekki auðvelt,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Samkvæmt ársreikningi IA tónlistarhátíðar ehf. fyrir árið 2016 var hátíðin þá rekin með ríflega 57 milljóna króna tapi.

Grímur segir að það ár hafi aðstandendur hátíðarinnar gert ráð fyrir um 10 þúsund gestum en að 8.500 gestir hafi mætt. Í ársreikningnum kemur fram að tekjurnar hafi numið 215,5 milljónum króna samanborið við 202,2 milljónir árið áður. 

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.vísir/ernir
Spurður um ástæður þessa svarar Grímur því til að að aukin samkeppni í innflutningi tónlistarmanna, dýrari flug og ríflega fimmtíu prósent hækkun á kostnaði við gistingu, hafi vegið þungt. Sterkt gengi krónunnar hafi haft í för með sér að dýrara varð fyrir ferðamenn að koma til landsins.

Þessi rekstrarniðurstaða varð að sögn Gríms til þess að seglin voru dregin saman í fyrra. Til að ná niður kostnaði hafi færri bönd spilað 2017 auk þess sem tónlistarhúsið Harpa hafi verið tekið út sem tónleikastaður, svo dæmi séu tekin.

„Við skárum niður kostnaðinn um rúmlega 80 milljónir,“ útskýrir Grímur og bætir við að niðurskurðurinn hafi orðið til þess að reksturinn í fyrra hafi verið í jafnvægi.

„Það er mjög gott. Við gætum ekki rekið þetta í tómum mínus,“ segir Grímur og segir framtíð Airwaves bjarta. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.