Innlent

Svavar Garðarsson er Vestlendingur ársins 2017

Samúel Karl Ólason skrifar
Skessuhorn
Vestlendingur ársins 2017 er Svavar Garðarsson í Búðardal í Dalabyggð. Hlaut hann langmestan fjölda tilnefninga í kosningu íbúa á Vesturlandi. Það er héraðsfréttablaðið Skessuhorn sem stóð fyrir valinu, að þessu sinni í tuttugasta skipti, en blaðið fagnar einmitt tvítugsafmæli sínu í næsta mánuði.

Í umsögnum þeirra sem greiddu Svavari atkvæði sitt er einkum nefnt að hann hefur lagt fram hundruð klukkustunda í sjálfboðastarfi við að fegra og bæta umhverfið á heimaslóðum. Hann lagfærir og hreinsar opin svæði og er öðrum íbúum hvatning til góðra verka.

Þá beitti Svavar sér í haust fyrir því að selir úr Húsdýragarðinum yrðu fluttir í laug í Búðardal. Þar fóðrar hann selina og undirbýr þá til að komast í sjó í sitt náttúrulega umhverfi, fáist til þess leyfi yfirvalda.

Tíu efstu:

Samtals voru 32 tilnefndir í kjörinu á Vestlendingi ársins að þessu sinni. Þeir sem urðu í tíu næstu sætum á eftir Svavari Garðarssyni eru:

Andrea Björnsdóttir á Eystri-Leirárgörðum (Vestlendingur ársins 2016), Anna Dröfn Sigurjónsdóttir í Kvíaholti á Mýrum, Guðmundur Smári og Runólfur Guðmundssynir í Grundarfirði, Guðrún Jónsdóttir safnstjóri í Borgarnesi, Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri á Akranesi, Jósep Blöndal læknir í Stykkishólmi, Máni Hilmarsson hestamaður í Borgarnesi, Valdís Þóra Jónsdóttir kylfingur á Akranesi og Þórður Gylfason veitingamaður á Akranesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×