Búist er við um 400 íslenskum stuðningsmönnum á leik Belgíu og Íslands í Þjóðadeildinni í kvöld en búið er að selja rétt ríflega 30.000 miða á King Badoin-leikvanginn sem tekur um 50.000 manns.
Íslendingafélagið í Brussel keypti 200 miða en það stendur fyrir hittingi í miðborg Brussel þar sem að íslenskir stuðningsmenn geta vökvað sig og átt góða stund saman áður en haldið verður á völlinn.
Íslendingar í Brussel ætla að hittast á O'Reilly Pub í miðborg Brussel en fyrstu menn mæta klukkan 15.00. O'Reilly er á Beursplein 1 en allt í kring eru veitingastaðir og barir svo enginn ætti að verða svangur eða þyrstur.
Íslendingafélagið mælir ekki með því að reyna að aka á völlinn þar sem umferðaþungi á háannatíma í Brussel er mikill.
Stuðningsmenn íslenska liðsins sem hittast í miðbænum ætla að leggja af stað upp á völl klukkan 18.30 en leikurinn hefst klukkan 20.45 að staðartíma.
Lögreglan, sem vinnur þetta í samstarfi við Íslendingafélagið, mun fylgja íslensku stuðningsmönnunum á næstu lestarstöð og leiða þá alla leið upp á völl. Búist er við að frítt verði í lestina.
Íslendingafélagið vill koma því á framfæri að engar töskur eru leyfðar á vellinum í kvöld, hvorki stórar né smáar þannig betra er að skilja þær bara eftir heima.
Íslenskir stuðningsmenn í Brussel fá lögreglufylgd á völlinn

Tengdar fréttir

Kári: Mun mæta 45 ára í landsliðið ef ég verð valinn
Kári Árnason mun aldrei segja nei við íslenska landsliðið.