Í kvöld mæta Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain liðinu Les Herbiers í bikarúrslitum í Frakklandi.
Veistu ekki hvaða lið Les Herbiers er? Skiljanlega. Þetta er lið sem er í fallbaráttunni í C-deildinni í Frakklandi en það komst upp í C-deildina í fyrsta sinn í sögu félagsins fyrir þremur árum. BBC greinir frá.
Les Herbiers á einn leik eftir í deildarkeppninni og getur fallið í lokaumferðinni en fari svo að liðið endi í D-deildinni verður það með varaliði PSG í deild á næsta tímabili.
Heildarkostnaður við rekstur á liði Les Herbiers á ári eru tvær milljónir evra en það myndi duga fyrir launum brasilísku ofurstjörnunnar Neymars hjá PSG í heila 16 daga. Eftir það þyrftu Herbiers-menn að fara að selja ansi mikið af harðfisk.
PSG er rekið á 540 milljónum evra á ári en liðið hefur unnið 27 titla í sögunni. Les Herbiers hefur aldrei unnið titil og eytt 98 árum fyrir neðan B-deildina á meðan PSG hefur aðeins einu sinni í sögunni verið fyrir neðan B-deildina.
Það er ekkert nýtt að smálið komist í úrslit bikarsins eða deildabikarsins í Frakklandi. Les Herbiers er fimmta liðið úr C eða D-deild sem kemst í úrslitaleikinn og það ætla allir í bænum að mæta.
Í bænum búa 15.933 og er búið að selja 15.000 miða. Síðastur út slekkur svo ljósin.

