Erlent

Tugir látnir eftir að stífla brast í Kenía

Samúel Karl Ólason skrifar
Óttast er að tala látinna muni hækka.
Óttast er að tala látinna muni hækka. Vísir/AFP
Tugir eru látnir eftir að stífla brast í Kenía í nótt. Minnst 41 lík hefur fundist og óttast er að tala látinna muni hækka. Rúmlega tvö þúsund manns misstu heimili sín í flóðbylgjunni sem flæddi úr stíflunni og ruddi á brott heimilunum, rafmagnsstaurum og öðru. Embættismenn segja að skemmdirnar liggi ekki fyrir að fullu enn.

Samkvæmt BBC hefur mikil rigning verið á svæðinu en vitni segjast hafa heyrt háværan hvell í aðdraganda flóðsins.



Stíflan er í einkaeigu umsvifamikils bónda á svæðinu og er talið að mikið vatn hafi leitt til flóðsins. Embættismenn kanna hvort að bóndinn hafi haft leyfi til að byggja stífluna og tvær aðrar til viðbótar á svæðinu. Hinar tvær stíflurnar eru einnig fullar af vatni og er óttast að þær gætu einnig brostið.

Hin mikla rigning sem farið hefur yfir svæðið hefur valdið miklu tjóni og dauðsföllum. Minnst 162 eru sagðir hafa dáið í ríkinu og um 220 þúsund hafa misst heimili sín. Þá hefur rigningin og meðfylgjandi flóð valdið miklu tjóni á landbúnaðarafurðum en miklir þurrkar höfðu þegar komið verulega niður á matvælaframleiðslu landsins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×